„Sólin ræður alveg við þetta“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil hálka og þoka var í Reykjavík þennan morguninn. Að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur veðurfræðings veldur nægur raki í þokuloftinu því að hann þéttist neðst og myndar þessa hálku sem við verðum vör við.  

„Það er mjög rakt loft hérna í kring og um leið og það kólnar þá þéttist það. Það er mjög algengt þegar sólin er til staðar að hún nær að hita af sér andrúmsloftið og bræða í raun og veru af sér þokuna og svo um leið og sólin sest þá kólnar nægilega mikið til að þess loft þéttist aftur og myndi þoku. Svo þetta er mjög algengur dægursveifluhringur sem verður á meðan það er suðlæg átt af hafi því þá er loftið alltaf rakara en ef það er norðanátt í Reykjavík,“ sagði Elín.

Þokan og hálkan er þó líklega ekki komin til að vera í dag. „Sólin ræður alveg við þetta, hún er að brjótast hérna í gegn en meðan lofthitinn er svona ein til tvær gráður þá getur verið launhált mjög víða og það er líka mjög hægur vindur sem er líklega ástæðan fyrir því að þetta hefur verið svona víðtækt,” sagði Elín.

Svipað ástand í kvöld

Elín segir hálkuna algjörlega vera ástæðu til að fara varlega í umferðinni og bætti við að það væri alveg viðbúið að svipað ástand yrði í kvöld þegar sólin sest. 

Það þurfi þó líklega ekki að búast við svipuðu ástandi í fyrramálið að sögn Elínar því hvessa eigi með rigningu í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert