Helga fyrsti doktorsneminn í hestavísindum

Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta.
Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta. Ljósmynd/Aðsend

Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta, hóf nýverið doktorsnám í hestavísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Helga úrskrifaðist frá Dýralæknaskólanum í Hannover í Þýskalandi árið 2002 og lauk þriggja ára sérfræðinámi í skurðlækningum stórra dýra frá Háskólanum í Ghent í Belgíu árið 2012. Helga hefur alls um 20 ára starfsreynslu við hestalækningar, bæði hér heima og erlendis.

Verkefni hennar heitir Hlutlæg greining á helti í íslenska hestinum (Objective lameness detection in Icelandic horses) og er hluti af stóru, fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni á sviði hreyfigreiningar hrossa, að því er segir í tilkynningu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. 

Markmið verkefnisins er að meta ávinning hlutlægra mælinga á helti samanborið við hefðbundna sjónræna heltigreiningu í þeim tilgangi að auka heilbrigði, endingu og velferð íslenska hestsins. Enn fremur að bæta þekkingu á áhrifum helti á hreyfimynstur og ganglag íslenska hestsins og bæta þannig aðferðir við sjónrænt mat á helti.

Aðalleiðbeinandi Helgu er dr. Sigríður Björnsdóttir, gestaprófessor við skólann, en aukaleiðbeinendur dr. Marie Rhodin og dr. Elin Hernlund frá Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar, segir enn fremur í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert