Ræða möguleikann á eldgosi í sjó

Fagradalsfjall á Reykjanesskaga er aðeins nokkrum kílómetrum frá sjó.
Fagradalsfjall á Reykjanesskaga er aðeins nokkrum kílómetrum frá sjó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísindaráð almannavarna ræðir á fundi sínum á morgun þann möguleika að hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga geti náð niður að sjó í suðri. 

Víkurfréttir greindu fyrst frá þessum hugmyndum en Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, staðfestir í samtali við mbl.is að til standi að ræða þennan möguleika á fundinum á morgun.

„Ef við erum að túlka enda gangsins rétt eru rétt nokkrir kílómetrar út í sjó,“ segir Kristín.

Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur.
Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja vera einu skrefi á undan

Kviku­gang­ur­inn sem nær frá Keili að Fagra­dals­fjalli held­ur áfram að stækka og er mesta kvikuflæðið sem fyrr bundið við suðurenda hans sem ligg­ur und­ir og nærri Fagra­dals­fjalli. Svæðið til sjávar styttist eftir því sem kvikugangurinn lengist.

Möguleikinn verður sem fyrr segir tekinn fyrir á fundi morgundagsins. „Við viljum bara vera einu skrefi á undan, þannig að ekkert komi okkur á óvart,“ segir Kristín.

Gangurinn heldur áfram að stækka og er næst yfirborði við …
Gangurinn heldur áfram að stækka og er næst yfirborði við suðurendann. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert