Þingmaður ákallar drottin vegna jarðskjálfta

Birgir Þórarinsson þingmaður við kirkjuna sem hann hefur látið reisa. …
Birgir Þórarinsson þingmaður við kirkjuna sem hann hefur látið reisa. Keilir til hægri á myndinni. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðhræringar á Reykjanesskaga að undanförnu réðu því að Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sem býr að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, flýtti uppsetningu kross – hins heilaga tákns – á kirkju sem hann hefur reist við íbúðarhús sitt og stendur til að vígja í sumar. Krossinn var settur upp sl. laugardag.

„Þetta er ákall og bæn til Drottins um að hemja náttúruöflin. Hér skelfur og við höfum ekki náð heilum svefni lengi,“ segir Birgir sem er guðfræðingur að mennt, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Vatnsleysuströnd getur verið í hættu komi til eldgoss á Keilissvæðinu, segir Birgir. Gleymst hafi í umfjöllun að undanförnu að á ströndinni sé byggð í aðeins um tíu kílómetra fjarlægð frá hugsanlegum gosstað. Byggðin standi á hrauni sem fyrir þúsundum ára rann frá dyngjunni sem heitir Þráinsskjöldur; óróasvæðinu sem oft hefur verið nefnt í fréttum að undanförnu. Þá tilheyrir Minna-Knarrarnesi skák á hraununum við Keili, meðal annars við fjallið Nyrðri-Keilisbróður en þar er talið að annar endi kvikugangsins sé.

Framkvæmdir við kirkjubygginguna á Minna-Knarrarnesi hófust árið 2015 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, tók fyrstu skóflustunguna. Óli Jóhann Ásmundsson er arkitekt kirkjunnar sem er 5 x 8 metrar að flatarmáli eða 40 fermetrar og mun taka um 40 manns í sæti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert