Hefur áhyggjur af því að fólk fari sér að voða

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segist hafa áhyggjur af því að fólk fari ekki nógu varlega á gossvæðinu í Geldingadal. Hann segir að engin alvarleg uppákoma hafi enn orðið en aðstæður séu ef til vill hættulegri en margir átta sig á. 

„Það er þarna víða hraun að renna yfir votlendi. Þar geta myndast gufusprengingar sem þeyta hrauni í allar áttir. Og þessir gígar sem eru þarna að myndast eru ansi veikburða á meðan þeir eru að myndast og þeir geta hrunið fyrirvaralaust,“ segir Rögnvaldur við mbl.is

Myndir af gosinu í Geldingadal við Fagradalsfjall sem voru teknar …
Myndir af gosinu í Geldingadal við Fagradalsfjall sem voru teknar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margir hafa lagt leið sína að gossvæðinu í dag og segist Rögnvaldur trúa því að fólki fækki ekki endilega nú þegar búið er að dimma. Gosið sé enda mikilfenglegra, að mati margra, í ljósaskiptunum og því á hann von á því að fólk fari að svæðinu á öllum tímum sólarhringsins.

Nú eru þarna viðbragðsaðilar og vísindamenn að störfum, hefur almenningur eitthvað flækst fyrir slíkri vinnu?

„Nei, ég hef ekki heyrt af því,“ segir Rögnvaldur og bætir við: „Ég held að fólk gleymi sér bara í gleðinni og stemningunni. Það er ekki eins og þetta sé bara einhver hjalandi lækur, það eru mun stærri öfl þarna við að eiga en það, þó svo að þetta sé lítið og sætt gos.“

Biðlar til fólks að fara eftir leiðbeiningum

Rögnvaldur segist hafa áhyggjur af því að fólk fari ekki eftir fyrirmælum yfirvalda, sem hafa verið gefin út og beint til þeirra sem ætli sér að ferðast um gossvæðið. Hann segir ekkert benda til þess að ástandið breytist í bráð en bætir við að náttúran sé óútreiknanleg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina