„Við höfum ekki fengið nóg bóluefni“

„Það var svakalega mikið högg,“ segir Anna Sigrún um hlé …
„Það var svakalega mikið högg,“ segir Anna Sigrún um hlé á notkun bóluefnis AstraZeneca. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Aðstoðarmaður forstjóra Landspítala segir að skortur sé á bóluefni gegn Covid-19 hjá spítalanum eins og annars staðar. Enn á eftir að bólusetja einhverja starfsmenn sem eru mjög framarlega í þjónustu spítalans. Um helmingur starfsfólks Landspítala hefur fengið bólusetningu gegn Covid-19. Enn á eftir að bólusetja um 2.500 starfsmenn spítalans sem starfa í klínískri þjónustu. 

„Eftir því sem bóluefnið hefur borist er reynt að koma þessu eins hratt út og mögulegt er,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala. 

Hún bendir á að spítalinn sé í sömu stöðu og aðrir hvað varðar skort á bóluefni en bólusetning innan spítalans sé unnin í þéttu samráði við sóttvarnar- og heilbrigðisyfirvöld.

„Við höfum ekki fengið nóg bóluefni, við höfum ekki náð að bólusetja alla sem við viljum. Það er enn fólk sem er mjög framarlega í þjónustunni sem er óbólusett og það er vegna þess að það er skortur á bóluefni.“

Samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda á bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks að ljúka um miðjan apríl. Spurð hvort útlit sé fyrir að það gangi upp segir Anna Sigrún:

„Þó maður vonist til þess að það náist þá sér maður það ekki endilega fyrir sér tímans vegna. Við erum komin undir lok mars. Þótt við fengjum nóg bóluefni í næstu viku þá líður mismunandi tími á milli bólusetninga.“

Enn á eftir að bólusetja um 2.500 starfsmenn spítalans sem …
Enn á eftir að bólusetja um 2.500 starfsmenn spítalans sem starfa í klínískri þjónustu og 500 sem ekki hafa klínískt samband við sjúklinga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hlé á notkun efnis AstraZeneca mikið högg

Aðspurð segir Anna Sigrún að ákvörðun um að gera hlé á notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19 hafi haft töluverð áhrif á bólusetningar innan spítalans. 

„Það var svakalega mikið högg. Við ætluðum þá einmitt að kalla þessa 2.500 í það og vorum byrjuð að bólusetja hluta af þeim mannskap og þurftum þá að stöðva þá bólusetningu þar til ákvörðun verður tekin um framhaldið,“ segir Anna Sigrún. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að til skoðunar væri að af­marka bet­ur þann hóp sem get­ur fengið bólu­efni AstraZeneca gegn Covid-19 hér­lend­is en blóðsega­vanda­mál hafa helst komið upp hjá ung­um kon­um, yngri en 55 ára, eft­ir bólu­setn­ingu með efn­inu. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um áframhaldandi notkun efnisins hérlendis. 

Spurð hvort það myndi einnig hafa áhrif á bólusetningu innan Landspítala ef ekki mætti bólusetja yngra fólk með bóluefni AstraZeneca segir Anna Sigrún:

„Já, það myndi gera það vegna þess að við erum með ungt fólk í vinnu hjá okkur, sem er mjög stór hluti af okkar fólki.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert