Býst við því að gossvæðið verði opnað

Búast má við því að fjöldi fólks skoði eldgosið í …
Búast má við því að fjöldi fólks skoði eldgosið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum býst fastlega við því að Suðurstrandarvegur verði opnaður fljótlega og gönguleiðin að gossvæðinu sömuleiðis.

Tekin verður ákvörðun um það á fundi almannavarna sem hófst klukkan 9, en Vegagerðin skóf veginn í morgun.

Að sögn Gunnars Schram yfirlögregluþjóns hefur veður gengið hratt niður og virðist veðurspáin vera góð. Lítill vindur verður en hugsanlega einhver él fram á hádegi.

Björgunarsveitarmenn á ferðinni í Geldingadölum.
Björgunarsveitarmenn á ferðinni í Geldingadölum.

Vísað burtu í nótt

Einn eða tveir voru á gossvæðinu í nótt og þurfti lögreglan að vísa þeim í burtu, enda svæðið lokað vegna veðurs.

Áfram verður fylgst með erlendum ferðamönnum, bæði við landamærin og þar sem lokunin hefur verið, til að passa upp á þeir brjóti ekki sóttkví með því að fara að sjá eldgosið.

Um 20 bílar biðu eftir því að komast eftir Suðurstrandarvegi þegar mbl.is ræddi við Gunnar og var lögreglan að ræða fólkið í bílunum vegna eftirlitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert