Af hverju heitir svæðið Geldingadalir?

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líklegt þykir að örnefnið Geldingadalir, þar sem nú gýs, vísi til sauðfjár sem hefur verið gelt, frekar en endilega manna sem hafa verið geldir. Flest öll örnefni á Íslandi sem kennd eru við geldinga vísa til sauðkindarinnar. Þetta kemur fram í svari Hallgríms J. Ámundasonar, fyrrverandi verkefnisstjóra nafnafræðisviðs Árnastofnunar, á Vísindavefnum.

Spurt var: Eru til skýringar á uppruna örnefnisins „Geldingadalur“ á Reykjanesskaga? Nafnið á nýja gossvæðinu er sagt Geldingadalur stundum í fjölmiðlum. Örnefnasjá Landmælinga gefur hins vegar bara upp fleirtöluna, Geldingadalir. Á að nota það eða má nota bæði?

Geldingadalir eru víða

Geldingadali má finna víða á Íslandi, sér í lagi á Vestfjörðum, og þá bæði í eintölu- og fleirtölumynd. Einnig eru til fleiri örnefni sem kennd eru við geldinga; Geldingaá, Geldingaeyri og Geldingafell.

Þeir Geldingadalir sem hafa verið í fréttum nær stanslaust í á þriðju viku eru í raun röð smárra dælda og nú gýs í þeim hluta Geldingadala sem staðið hefur lægst en hefur verið mestur um sig, eins og segir í svari Hallgríms.

Í svari Hallgríms segir að líklegt megi þykja að sléttlend …
Í svari Hallgríms segir að líklegt megi þykja að sléttlend beitarlönd, á svæðinu í kringum Geldingadali, hafi nú þegar orðið hrauninu að bráð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orðið hrauni að bráð nú þegar

Í þeim dældum er nú gýs er talin hafa verið dálítil slétta og talsverð beit, eins og víða á öðrum stöðum á annars hrjóstrugum Reykjanesskaganum, og því er talið að geldingar hafi sótt þangað á beit.

Önnur beitarlönd á því svæði sem nú gýs eru t.a.m. Höskuldarvelli, Selsvellir og Lækjarvellir. Í svari Hallgríms segir að líklegt sé að þessar sjaldséðu sléttur hafi nú þegar orðið hrauni gossins að bráð.

Uppfært:
Í upphaflegri útgáfu var rangt farið með nafn Hallgríms J. Ámundasonar og hann sagður heita Hallmundur. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert