,,Eldri menn eru ekki sjálfkrafa karlrembur”

„Ungir karlar verða ekki opnari fyrir jafnrétti bara af því bara, það gerist ekki þannig. Alveg eins og eldri karlar eru ekki sjálfkrafa karlrembur,“ segir Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og feminsti. Hann er gestur Dóru Júlíu í Dagmálaþætti dagsins og ræðir jafnréttisbaráttu undir merkjum @karlmennskan.

Samfélagsmiðillinn @karlmennskan hefur vakið mikla athygli fyrir femíníska nálgun á karlmenn og karlmennsku. Þorsteinn er forsprakki miðilsins og hefur staðið fyrir ýmsum fyrirlestrum á málefninu ásamt annarri fræðslu í samvinnu við öflugan hóp af fólki.

View this post on Instagram

A post shared by karlmennskan (@karlmennskan)

Þorsteinn segir að þar sem jafnréttisumræðan fari mikið fram á samfélagsmiðlum í dag sé mögulega greiðara aðgengi fyrir yngra fólk að þeirri gagnrýnu kynjajafnréttis- og mannréttindaumræðu sem er nú í gangi. Hann telur að við bindum oft vonir og væntingar við yngri kynslóðir og teljum að jafnrétti verði meira með komandi kynslóðum. Hins vegar gerist ekkert sjálfkrafa, margt ryður veginn og það sé mikilvægt að hafa það í huga. 

„Ungir karlar verða ekki opnari fyrir jafnrétti bara af því bara, það gerist ekki þannig. Alveg eins og eldri karlar eru ekki sjálfkrafa karlrembur, þrátt fyrir að þeir hafi alist upp við samfélag sem við metum og skilgreinum í dag sem litað af misrétti og kannski karlrembu. Mér finnst ekki sanngjarnt að segja að miðaldra karlmenn séu handhafar alls ills og að við kennum ekki gömlum hundi að sitja. Það er ekki þannig.”

Áhugi úr öllum áttum

Fólk á öllum aldri hefur sett sig í samband við Þorstein til að ræða við hann um málefnið. Eitt sinn fékk hann símtal frá manni á áttræðisaldri sem hafði fundið símanúmer Þorsteins á ja.is. Maðurinn hafði þá heyrt viðtal við Þorstein og vildi spyrja hvort bók sem hann átti myndi henta vel til að ræða þessa hluti við barnabörnin sín. 

„Ég tek þetta sem dæmi því margir karlar vilja auðvitað vanda sig og gera hlutina vel á öllum aldri. Alveg eins og það eru karlar og drengir á öllum aldri sem finnst jafnréttisumræðan algjört kjaftæði, ekki eiga við sig og upplifa umræðuna sem persónulegar árásir. Þannig að þetta er alls konar.” 

Hægt er að sjá Dagmálaþætti Morgunblaðsins hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina