Hvetur til opnunar sundlauga

Sundlaugar landsins standa tómar vegna hertra sóttvarnareglna frá 25. mars.
Sundlaugar landsins standa tómar vegna hertra sóttvarnareglna frá 25. mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur til að Reykjavíkurborg leiti heimilda til að opna minnst eina sundlaug fyrir eldri borgara sem hafa verið bólusettir. Þetta kemur fram í opinni færslu hennar á Facebook í morgun.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Sundlaugar Reykjavíkur eru mikilvægur liður í hversdagslegri rútínu fjölmargra borgarbúa. Ekki síst eldri borgara sem reiða sig margir á sundlaugar fyrir hreyfingu, virkni og félagsskap. Nú þegar stór hluti eldri borgara hefur verið bólusettur við Covid-19 þætti mér eðlilegt að Reykjavíkurborg leitaði heimilda til að opna minnst eina sundlaug (helst fleiri) sem aðgengileg yrði bólusettum. Opnunartíma mætti takmarka við nokkrar klukkustundir fyrir hádegi, alla virka daga.

Það er mikilvægt að leita allra skynsamlegra leiða til að takmarka neikvæð áhrif sóttvarnaraðgerða á hversdagslegt líf fólks. Hér hefur gengið vel í baráttunni við veiruna og tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi,“ segir í færslu Hildar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina