50% kjörsókn þegar forval VG í Suðurkjördæmi var hálfnað

Frambjóðendur í forvali VG í Suðurkjördæmi.
Frambjóðendur í forvali VG í Suðurkjördæmi. Ljósmynd/Samsett

50% höfðu greitt atkvæði í forvali VG í Suðurkjördæmi í hádeginu þegar kosningin var hálfnuð. 334 hafa því greitt atkvæði á heimasíðu VG og það er áfram hægt að gera til klukkan 17.00 á morgun, mánudag.  

Úrslit verða kynnt annað kvöld að því er segir í tilkynningu frá VG.

Fimm frambjóðendur stefna á fyrsta sætið í forvalinu og vilja leiða lista VG í Suðurkjördæmi, en alls taka átta þátt í forvalinu. Þetta er annað forvalið hjá VG fyrir alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi. Fyrsta forvalið var í Norðausturkjördæmi og þar endaði kjörsókn í 62 prósentum að því er segir í tilkynningu frá VG.

Þessi fimm sækjast eftir fyrsta sæti:

  • Almar Sigurðsson ferðaþjónustubóndi.
  • Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður.
  • Hólmfríður Árnadóttir, menntunarfræðingur og skólastjóri.
  • Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður.
  • Róbert Marshall leiðsögumaður.

Auk þess eru í framboði Sigrún Birna Steinarsdóttir háskólanemi, Anna Jóna Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Niðurstöður kosningarinnar verða kynntar annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert