„Snýst ekki um neinn afslátt á sóttvarnaaðgerðum“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag, hvort hún sæi fyrir sér að birta áætlun um afléttingar í samhengi við bólusetningar.

„Á tímum Covid mætti kannski orða það sem svo að einhver fyrirsjáanleiki sé það sem hægt er að biðja um,“ sagði Þorbjörg og benti á að hann væri stórt atriði fyrir fyrirtæki í rekstri en einnig nauðsynlegur fólkinu í landinu.

Þorbjörg benti á að í nágrannalöndunum Danmörku og Noregi hefðu stjórnvöld birt svokallaðar afléttingaráætlanir. Til dæmis þegar bólusetningu ákveðins aldurshóps lýkur.

Þessum áætlunum sé ætlað að veita ákveðinn fyrirsjáanleika en þó séu þær gerðar með eðlilegum fyrirvara.

Geta rammað inn tímalínu

Þorbjörg benti á að ríkisstjórnin hefði sett upp bólusetningardagatal, sem væri af því góða, en hún vildi þó spyrja um markvissa og opinbera áætlun um opnanir og hvaða árangri þyrfti að ná til þess.

„Snýst ekki um neinn afslátt á sóttvarnaaðgerðum heldur um hina hliðina á peningnum,“ sagði Þorbjörg.

„Ef það er þannig að þessi skref miðast við bólusetningar eða einhver töluleg markmið þá hljótum við að vera komin á þann stað fljótlega að geta rammað inn tímalínu í þeim efnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnið að slíkri sýn

Katrín benti á að margar þessar afléttingaráætlanir miði að því að stefna í það ástand sem við erum í, að heimila fólki að fara í klippingu og að opna skóla.

„Eftir því sem meiri fullvissa hefur fengist um að afhendingaráætlanir bóluefnaframleiðenda muni standast telur ríkistjórnin sig betur í stakk búna til þess að horfa lengra í átt til framtíðar,“ sagði Katrín.

Hún sagðist geta svarað Þorbjörgu því að unnið væri að slíkri sýn á vettvangi ríkisstjórnar enda sé vitað hvar talið sé að við verðum stödd um mitt ár.

Ættum að geta sett upp vörður

„Það er að segja, þá teljum við að bólusetning verði hafin eða henni lokið hjá 240.000 af þeim 280.000 sem ætlunin er að bólusetja,“ sagði Katrín og bætti við:

„Þannig að við ættum, miðað við að þær áætlanir gangi eftir, að geta sett upp einhverjar vörður á þeirri leið.“

„Ég get bara sagt að þegar við erum komin á þann stað að við erum komin með nokkuð raunhæfa afhendingaráætlun frá öllum bóluefnaframleiðindum á næstu ársfjórðungum þá ættum við að vera komin á þann stað að geta rammað þetta inn og ég ímynda mér að það geti verið fyrr en síðar,“ sagði Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina