Með mólótovkokteila við skóla

Lögreglan fékk ábendingu um að hópur ungmenna væri með mólótovkokteila við skóla í Hafnarfirðinum um klukkan 22:00 í gærkvöldi. Hópurinn tvístraðist þegar lögreglan kom á vettvang en sjá mátti glerbrot og ýmis ummerki á staðnum að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Skömmu fyrir miðnætti var óskað eftir aðstoð lögreglu á Reykjavíkurflugvöll eftir að nefhjól á eins hreyfils flugvél brotnaði við lendingu. Engan sakaði.

Ökumaður var stöðvaður af lögreglu í Ártúnsbrekku á 138 km/klst. en hámarkshraði þar er 80 km/klst.

Rétt eftir miðnætti var ökumaður í vímu stöðvaður í Austurbænum (hverfi 105). Hann reyndist einnig vera með ólöglegan hníf á sér sem lagt var hald á.

Tveir voru handteknir um þrjú í nótt fyrir nytjastuld á ökutæki auk þess sem ökumaðurinn er grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Er þetta í annað skiptið síðustu tvo sólarhringa sem þessi sami einstaklingur er handtekinn fyrir nytjastuld.

Á Akureyri stöðvaði lögreglan för ökumanns sem var á rúntinum um bæinn en viðkomandi er bæði sviptur ökuréttindum auk þess sem hann var undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert