Leiguverð svipað og 2019

Alls voru greiddar um 599 m.kr. í húsnæðisbætur fyrir marsmánuð …
Alls voru greiddar um 599 m.kr. í húsnæðisbætur fyrir marsmánuð til um 17.557 heimila, sem samsvarar um 9,6% aukningu miðað við sama mánuð í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísbendingar eru um að leiguverð sé farið að lækka nokkuð meira en áður að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Tólf mánaða breyting vísitölu HMS fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu gefur vísbendingu þar um og mælist -2,6% í febrúar, en vísitalan lækkar um 1,2% á milli mánaða.

„Gildi vísitölu HMS fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið lægra síðan í apríl árið 2019. Svipaða sögu er að segja um vísitöluna fyrir hin svæðin, en það eru meiri sveiflur þar. Gildi vísitölunnar fyrir nágrenni höfuðborgarsvæðisins náði sama stigi í júní 2019 og mældist núna í febrúar, en hefur síðan sveiflast upp og niður frá þeim tíma. Annars staðar á landsbyggðinni má einnig finna sambærilegt gildi vísitölunnar um sumarið 2019,“ segir í skýrslu HMS.

Hlutfall kvenna, 18 ára og eldri, sem segist búa í foreldrahúsum er áfram marktækt hærra en hlutfall karla. Þetta er í samræmi við mælingar síðastliðins árs. Alls mældust 14,3% kvenna í foreldrahúsum en 8,5% karla. Það mælist einnig marktækur munur á kynjunum sem segjast búa í eigin húsnæði, 69,2% kvenna á móti 76,1% karla, en marktækur munur mældist ekki á kynjunum á leigumarkaði eða í öðru búsetuformi.

Á landsbyggðinni mælast hlutfallslega færri í foreldrahúsum en á höfuðborgarsvæðinu, eða 7,1% á móti 13,8%. Þar mælast einnig hlutfallslega fleiri í eigin húsnæði heldur en á höfuðborgarsvæðinu, 77,7% á móti 69,9% á höfuðborgarsvæðinu. Ekki mældist marktækur munur á hlutfalli einstaklinga á leigumarkaði á landsbyggðinni samanborið við á höfuðborgarsvæðinu.

Alls voru greiddar um 599 m.kr. í húsnæðisbætur fyrir marsmánuð til um 17.557 heimila, sem samsvarar um 9,6% aukningu miðað við sama mánuð í fyrra. Vegið meðaltal húsnæðisbóta hækkar um tæp 3,8% miðað við sama mánuð í fyrra og fjöldi heimila sem þiggur húsnæðisbætur hefur aukist um 5,6% á sama tímabili, en um áramótin tóku nýjar reglur gildi með aukningu á frítekjumörkum um 12%, sem skýrir þessa fjölgun.

Heildarfjöldi heimilismanna á bak við umsóknirnar, fullorðnir og börn, eykst um 4,1% úr u.þ.b. 30.200 í 31.400 manns. Þar af fjölgar fullorðnum um 5,2% en börnum aðeins minna eða um 2%. Samtals nemur fjöldinn um 8,5% af íbúum landsins, en hæst er hlutfallið 12% í Reykjavík og þar næst 11% í Reykjanesbæ og Akureyri en einungis 6% í Kópavogi og 5% í Mosfellsbæ. Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið lægst 3% í Garðabæ og 4% á Seltjarnarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert