Lagði hald á töluvert magn af áfengi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögregla stöðvaði bifreið í Árbænum upp úr klukkan hálfeitt eftir miðnætti í nótt. Er ökumaður hennar grunaður um að hafa selt áfengi úr bifreiðinni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að lagt hafi verið hald á töluvert magn af áfengi vegna málsins.

Íslenska ríkið hefur sem kunnugt er einokunarverslun á smásölu með áfengi á Íslandi.

Er athæfið því refsivert og brot gegn lögum um þetta geta varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.

Ökumaðurinn er ekki grunaður um akstur undir áhrifum en það voru þó þrír aðrir ökumenn sem stöðvaðir voru á ferðum sínum um höfuðborgarsvæðið í gærkvöldi og í nótt.

Fíkniefni í Garðabæ, áfengi í Hafnarfirði

Tveir þeirra voru stöðvaðir í Garðabæ og einn í Hafnarfirði. Þeir í Garðabæ eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna en sá í Hafnarfirði er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Tveir mannanna voru að auki án ökuréttinda vegna fyrri sviptingar.

Skömmu fyrir miðnætti var einnig tilkynnt um umferðaróhapp í Hafnarfirði. Þar virðist þó enginn vímugjafi hafa komið við sögu.

Um klukkan hálfsjö í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um umferðarslys í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Voru báðar bifreiðar fjarlægðar með dráttabifreið og eru ökumenn sagðir hafa sjálfir ætlað að leita á bráðamóttöku sökum minniháttar verkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert