Eyðilögðu rómantíska kvöldstund

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið/Eggert

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur útköllum á dælubílum síðasta sólarhringinn. Annað þeirra var í nótt þegar allar fjórar stöðvar voru sendar vestur í bæ þar sem tilkynnt var um eld í fjölbýlishúsi.

Nágranni hafði séð eldbjarma inni í íbúð og gert slökkviliði viðvart. Þegar slökkvilið kom á staðinn kom í ljóst að kveikt hafði verið á Youtube í 75 tommu sjónvarpi og íbúar verið að horfa á arineld. „Þar náðum við að eyðileggja það sem var byrjunin á rómantískri stund hjá þessum íbúum,“ segir á facebooksíðu slökkviliðsins. 

Þá sinnti slökkviliðið 79 útköllum á sjúkrabílum í gær og nótt. Þar af voru 12 flutningar vegna Covid-19. 

mbl.is