Enn mjakast Ísland niður listann

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland er í 16. sæti á lista yfir fjöl­miðlafrelsi í ríkj­um heim, sam­kvæmt nýj­um matskv­arða Blaðamanna án landa­mæra, The World Press Freedom Index, sem hef­ur verið birt­ur. Ísland fer niður um eitt sæti á milli ára en hef­ur færst niður um átta sæti á list­an­um frá því árið 2012. Hin norrænu löndin skipa fjögur efstu sæti listans en Kosta Ríka er í fimmta sæti listans.

Nor­eg­ur er í efsta sæti list­ans fimmta árið í röð og Finn­land er í öðru sæti, Svíþjóð í þriðja og Dan­mörk fjórða. Fjölmiðlafrelsi þykir meira í Eistlandi en Íslandi og litlu minna í Úrúgvæ en Íslandi.

Ísland er í 16. sæti listans en hin Norðurlöndin raða …
Ísland er í 16. sæti listans en hin Norðurlöndin raða sér í fjögur efstu sæti listans. Blaðamenn án landamæra

Í skýrslunni kemur fram að blaðamenn búi við hömlur í tæplega þremur af hverjum fjórum þeirra 180 ríkja sem rannsóknin nær til. Í 73 löndum er fjölmiðlun bönnuð eða tálmuð að hluta og ríkisstjórnir noti kórónuveirufaraldurinn sem vopn gegn frelsi fjölmiðla. „Blaðamennska er besta bóluefnið við upplýsingaóreiðu,“ segir framkvæmdastjóri RSF, Christophe Deloire, í fréttatilkynningu. Hann segir að því miður séu oft settar hömlur á framleiðslu og dreifingu þeirra af hálfu stjórnmálamanna, efnahagslegra aðstæðna, tækni og jafnvel menningar.

Þau ríki þar sem staða frjálsrar fjölmiðlunar er verst eru Erítrea, Norður-Kórea,Túrkmenistan, Kína og Djíbútí. 

Listinn í heild

Mið-Austurlönd og Norður-Afríka eru þau svæði þar sem erfiðast er að starfa við blaðamennsku. Er sérstaklega fjallað um stöðuna í Íran, Sádi-Arabíu, Egyptalandi og Sýrlandi. Með farsóttinni hafi staða fjölmiðla versnað enn frekar. 

Malasía er það land sem fellur mest á milli ára eða um 18 sæti og er nú í 119. sæti. Það er vegna nýrra laga gegn falsfréttum þar sem ríkisstjórninni er veitt heimild til þess að birta sína eigin útgáfu af sannleikanum að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Um Ísland segir að þrátt fyrir að hafa skapað sér afgerandi lagalega sérstöðu í að vernda tjáningar- og upplýsingafrelsi í júní 2010 hafi aðstæður fyrir blaðamenn versnað ár frá ári vegna versnandi samskipta milli fjölmiðla og stjórnmálamanna.

Þar kemur fram að efnahagshrunið 2008 hafi haft alvarleg áhrif á fjölmiðla á Íslandi, meðal annars möguleika þeirra til að standast þrýsting útsendara hagsmunahópa (lobbies), á sama tíma og trú almennings á fjölmiðla dvínar. 

Eftir hrunið hafi tvö helstu dagblöð landsins verið keypt af stórfyrirtækjum, annars vegar í sjávarútvegi og hins vegar í iðnaði, sem hafi valdið togstreitu hvað varðar afskipti eigenda. Nefnir RSF þar mál Samherja í Namibíu og herferð fyrirtækisins í fjölmiðlum í fyrra þar sem áherslan var á að gera lítið úr fjölmiðlafólki sem kom að gerð umfjöllunarinnar.  

Íslensk löggjöf verndar tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks en vegna fjárskorts er þetta helsta vandamál íslenskrar fjölmiðlunar. Í lokin er vísað til þess að ný fjölmiðlalög séu til skoðunar.

mbl.is