Litlu mátti muna að illa færi

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan hafði afskipti af ökumanni bifreiðar þar sem hann var spólandi á á bifreiðastæði við Bessastaðastofu á Álftanesi um klukkan 19:30 í gærkvöldi. Ítrekað mátti litlu muna að ökumaðurinn velti bifreiðinni. Farþegi úr bifreiðinni var fyrir utan bifreiðina að mynda gjörninginn.  Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Maðurinn var laus að lokinni upplýsinga- og sýnatöku að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um níu í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í geymslu íbúðarhúsnæðis í miðborginni. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hverju var stolið.

Lögreglan handtók mann í Austurbænum (hverfi 105) seint í gærkvöldi sem er grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og fleiri brot. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för ökumanns í Hafnarfirðinum sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

mbl.is