„Erum við alveg hætt að vera einstaklingar?“

Brynjar Níelsson telur ekki heppilegt að sett verði í lög …
Brynjar Níelsson telur ekki heppilegt að sett verði í lög að hlutföll kynja skuli vera jöfn í nefndum Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Þingmenn eru ekki allir á einu máli um frumvarp forsætisnefndar um breytingu á þingskapalögum, sem kveður á um að gæta skuli þess að hlutfall kvenna og karla í forsætisnefnd og fastanefndum sé sem jafnast. 

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks situr í forsætisnefnd og er á meðal flutningsmanna frumvarpsins sem rætt var á þingi í dag en þá mælti Bjarkey Olsen þingmaður Vinstri grænna fyrir umsögn allsherjar- og menntamálanefndar sem tekur undir breytingarnar.

„Ekki eina viðmiðið hvers kyns menn eru“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist kominn af fótum fram að hlusta á umræður í þinginu um málið en hann telur að líta þurfi til fleiri þátta en kynferðis þegar kosið er í nefndir:

„Það kann að vera að ég sé steintröll, kann að vera, ég vil ekki útiloka það. En fyrir mér er löggjöf til að kveða á um réttindi og skyldur okkar og leikreglur sem verður farið eftir. Löggjöf er ekki eitthvað til að sýnast. [...]

„Þegar við erum að kjósa hér í nefndir þá er ekki eina viðmiðið hvers kyns menn eru. Ég er maður fjölbreytileikans en bíddu, snýst þetta allt um einhver kyn? Erum við alveg hætt að vera einstaklingar? Það eru auðvitað mörg önnur sjónarmið uppi heldur en kyn. Það getur verið aldur, fyrri störf, reynsla og þekking,“ sagði hann og lauk ræðunni á þessum orðum:

„Hættum þessari þvælu. Þetta er bara sýndarmennska, tilgangslaust. Gerir okkur örugglega bara að athlægi alla vega þegar fram í sækir. Hæstvirtur forseti, ég ætla að láta staðar numið áður en ég æsist meira upp.“ 

Ein kona og átta karlar í fjárlaganefnd 2017

Frumvarpið kveður á um að kynjahlutföll í forsætisnefnd og fastanefndum séu eins jöfn og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahutföll innan þingflokka bjóða. Sagði Bjarkey Olsen um málið að Alþingi hafi sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki staðið nægilega vel að jafnréttissjónarmiðum við kosningu í nefndir þingsins. 

„Það reyndi á það þegar kosin var ein kona og átta karlar í fjárlaganefnd árið 2017. Sú kona er sú sem hér stendur. Það voru dálítil viðbrigði að vera ein í svoleiðis nefnd,“ sagði Bjarkey og bætti við að hún hafi fundið hvernig umræða innan nefndarinnar tók breytingum við það en hún hafði áður setið í fjárlaganefnd.

Þá gagnrýndi Björn Leví Gunnarsson þingmaður frumvarpið og sagði að ekki væri hægt að tryggja jöfn kynjahlutföll líkt og frumvarpið kveði á um.

„Einn flokkur getur ekki skipað öðrum flokkum um nefndaskipan í eina eða neina nefnd á þingi og þar eru takmörk þessa frumvarps algjörlega skýr. Því miður og sem betur fer í rauninni,“ sagði hann, þar sem sjálfstæði og umboð þingflokka væru óháð umboði annarra. 

Mikilvægt að sjónarmið allra kynja heyrist 

Eftir ræðu Brynjars kvað Bryndís sér hljóðs og taldi rétt að upplýsa um skoðun sína verandi á meðal flutningsmanna frumvarpsins:

„Ég get alveg haft skilning á ýmsum sjónarmiðum sem heyrst hafa í þessari umræðu og átta mig á því að við erum kosin inn af þjóðinni og þingflokkar þar af leiðandi misjafnir og kynjahlutföllin geta verið mismunandi í þingflokkunum.

Þar af leiðandi kann að vera oft ógjörningur og erfitt að horfa til þess sem hér er verið að mælast til um en það breytir ekki þeirri staðreynd að það að sjónarmið beggja kynja eða allra kynja heyrist skiptir máli. Það er mikilvægt.

Og ég trúi því í einlægni að til að mynda ef að það væru nú bara konur utan af landi í fjárlaganefnd þá værum við með síðri fjárlaganefnd en ef við hefðum bæði kynin og fólk bæði frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Ég held að þessi fjölbreytileiki skipti máli, það er bara þannig,“ sagði hún og nefndi í lokin að hennar sannfæring sneri að því að jafnrétti kynjanna skipti máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert