Mikill vatnsleki á Kirkjusandi

mbl.is/Eggert

Mikið hefur verið að gera hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðasta sólarhringinn en á fimmta tímanum í morgun var tilkynnt um mikinn kaldavatnsleka í fjölbýlishúsi við Kirkjusand. Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu kom tilkynningin til þeirra um hálffimm í morgun. Skrúfa þurfti fyrir vatn í nokkrum stigagöngum og hreinsistarfið tók á aðra klukkustund. Vatnið flæddi frá fimmtu hæð og niður í kjallara í lagnastokk hússins og var dælt út þaðan. 

Boðanir á sjúkrabíla voru 73 og þar af 18 forgangsverkefni og 9 vegna Covid-19. Einnig voru 5 verkefni á dælubíla en meðal verkefna voru tveir sinubrunar í Hvalfirði. Síðdegis var svo tilkynnt um gróðureld við Búrfellsgjá við Helgafell en þar reyndist eldur kominn í mosa.

„Erfitt var að koma slökkvibifreið á staðinn og því takmarkaður slökkvibúnaður meðferðis. Eftir að hafa slökkt mestallan eld var þó ljóst að bleyta þyrfti vel í mosanum þar sem erfitt getur reynst að slökkva allar glæður og fengum við aðstoð frá Landhelgisgæslunni sem sendi þyrlu með slökkviskjólu og var vatni dreift yfir svæðið,“ segir í færslu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert