„Fagfólk kemur aldrei í stað ástvina“

Ingólfur Hartvigsson sjúkrahúsprestur í covid-hlífðarfatnaði.
Ingólfur Hartvigsson sjúkrahúsprestur í covid-hlífðarfatnaði. Ljósmynd/Helga Soffía Konráðsdóttir

Lífsreynsla margra Covid-sjúklinga hefur verið átakanleg, sérstaklega vegna einangrunarinnar sem sjúkdómnum fylgir. Sjúkrahúsprestur segir að mörgum sjúklingum hafi þótt erfitt að allt fólkið sem þeir hittu hafi verið klætt í Covid hlífðarfatnað sem sýnir lítið nema augu viðkomandi. Hann segir að faraldurinn hafi verið erfiður og sérkennilegur en dregið hafi úr álagi að undanförnu.

„Einangrunin getur orðið slæm á eðlilegum tímum en þegar Covid bættist vildi ég að ástvinir kæmust sem fyrst til sjúklinga. Það hefur verið mjög flókið, eða var það að minnsta kosti fyrst. Þá vorum við að vinna mikið í gegnum þessa samskiptatækni, til dæmis Teams, og nota símann,“ segir Ingólfur Hartvigsson, sjúkrahúsprestur á Landspítala. Hann hefur starfað mikið á Covid-deildum spítalans.

„Það er ýmislegt sem ég hefur þurft að glíma við,“ segir Ingólfur.

Stundum engar heimsóknir

Í venjulegu árferði eru aðstandendur hvattir til að heimsækja ástvini sína sem liggja á spítala. Þá vinna sjúkrahúsprestar og –djáknar gjarnan með aðstandendum. Ingólfur segir að það hafi verið erfitt að vinna í fjarlægð frá aðstandendum.

„Í starfi sjúkrahúspresta og –djákna eru aðstandendur auðvitað mikilvægur hluti af bata, sérstaklega hvað sálrænan bata varðar. Í faraldrinum hafa margir aðstandendur ekkert getað nálgast fólkið sitt. Þá er ég ekki eingöngu að tala um þá sem hafa fengið Covid og eru að eiga við Covid-sjúkdóminn heldur líka fólk sem liggur um tíma inn á spítala út af einhverju öðru. Heimsóknir aðstandenda voru um tíma mjög takmarkaðar og í stundum engar.“

Síðastliðið haust jókst grímunotkun til muna á spítalanum eins og annars staðar.

„Mér fannst erfitt að geta ekki leyft fólki að sjá andlitið á manni mér þegar ég talaði við það,“ segir Ingólfur um það. Þegar sjúklingar á Covid-deildum voru heimsóttir þurfti þó enn meiri hlífðarfatnað.

„Þá þurftum við að venjast þessum Covid-göllum sem var líka svolítið erfitt fyrst. Ég var snöggur að venjast því en ég hugsaði stundum og ræddi það við mína skjólstæðinga að það var ekki auðvelt fyrir fólkið sem lá inni í einangrun að allt fólkið sem kom til þeirra var í þessum Covid-göllum. Þá upplifun hef ég auðvitað ekki en auðvitað var það mjög erfitt fyrir einhverja að venjast því,“ segir Ingólfur og bætir við:

„Sálgæsla fer að öllu leiti fram í gegnum samskipti og þá er best að viðkomandi sem þiggur sálgæslu sjái andlitið á manni. Þegar ég er í þessum covid galla þá sést ekki vel í andlitið. Þú hreyfir þig hugsanlega ekki eðlilega ef þú ert í svona galla. Það fylgir þessu auðvitað hiti og óþægindi sem geta haft áhrif á samskiptin.“

Frá gjörgæsludeild Landspítala. Þar þurftu mest 12-13 manns að dvelja …
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Þar þurftu mest 12-13 manns að dvelja á sama tíma í öndunarvél. Ljósmynd/Landspítali

Erfitt að geta ekki heyrt í ástvinum

Sálgæsla presta er alltaf á forsendum þeirra sem hana þiggja. Spurður hvort fólk hafi kallað eftir meiri viðveru sjúkrahúspresta og -djákna í faraldrinum en vant er, vegna takmarkaðra heimsókna frá ástvinum segir Ingólfur:

„Það var í raun rosalega misjafnt. Þetta fór eftir veikindum viðkomandi, hvort fólk var alvarlega veikt af Covid eða ekki. Það var auðvitað misjafnt eftir alvarleika, hvernig fólk tókst á við Covid og það var auðvitað boðið upp á þessi tæki, spjaldtölvur og annað. Þeir sem voru í einangrun voru í miklum samskiptum við sínar fjölskyldur og sína vini í gegnum slík tæki. Það er auðvitað það sem skiptir öllu máli þegar kemur að sálgæslu, að fá að vera í samskiptum við sitt fólk. Fagfólk kemur aldrei í stað ástvina. Það er í mínum huga staðreynd.“

Ingólfur segir að gjarnan hafi aðstandendur sjúklinga leitað til presta og djákna þegar sjúklingarnir þurftu að fara í öndunarvél.

„Þegar ástvinur var inni á gjörgæslu, svæfður í öndunarvél þá gastu auðvitað ekki talað við viðkomandi. Það var fólk sem var í öndunarvél í nokkrar vikur. Það getur auðvitað verið þungt fyrir ástvini, að geta hvorki farið til þeirra né heyrt í þeim. Þá leitaði fólk oft aðstoðar hjá sjúkrahúspresti eða djákna.“

„Í kjölfar veikinda, þegar fólk kom úr öndunarvél, þá óskaði …
„Í kjölfar veikinda, þegar fólk kom úr öndunarvél, þá óskaði það eftir samtali. Það er auðvitað lífsreynsla að vakna úr öndunarvél, hvort sem það er Covid eða eitthvað annað og það tekur svolítinn tíma að jafna sig á því,“ segir Ingólfur. Ljósmynd/Landspítalinn

Lífsreynsla að vakna úr öndunarvél

Í þessum tilvikum hringdi læknir daglega í aðstandendur og bauð í leiðinni upp á samtal við prest. Ef eftir því var óskað hringdu þá sjúkrahúsprestar eða –djáknar í framhaldinu.

„Í kjölfar veikinda, þegar fólk kom úr öndunarvél, þá óskaði það eftir samtali. Það er auðvitað lífsreynsla að vakna úr öndunarvél, hvort sem það er Covid eða eitthvað annað og það tekur svolítinn tíma að jafna sig á því.“

Fimm eru nú inniliggjandi á Landspítala vegna sjúkdómsins. Sem stendur er ekki mikið álag tengt Covid hjá Ingólfi.

„En það eru samt sem áður enn þessir erfiðleikar með það að það má ekki koma nema ákveðinn fjöldi yfir daginn. Ég er alltaf svolítið með varann á mér. Spítalinn er að sjálfsögðu líka með varann á, að passa upp á það að Covid komist ekki inn á spítalann. Spítalinn hefur vonda reynslu af því, samanber það sem gerðist á Landakoti,“ segir Ingólfur og vísar til hópsmits sem kom upp á öldrunardeild Landspítala að Landakoti.

Hafði mestar áhyggjur af því að bera smit

Ingólfur segir að ef allt væri eðlilegt væri spítalinn opinn. 

„Það er almennt óskað eftir því að aðstandendur séu duglegir að koma og heimsækja þá ástvini sem þeir eiga inni á spítalanum. Það er enn þannig en það er allt undir góðri stjórn og leiðsögn,“ segir Ingólfur.

Hann hefur fengið bólusetningu eins og annað heilbrigðisstarfsfólk sem starfar í framlínunni. 

„Það var mjög gott. Ég var kallaður inn ásamt heilbrigðisstarfsfólki og fékk mína bólusetningu. Enn er ég samt með grímu og passa mig vegna þess að ég er auðvitað meðvitaður um að ég geti borið þessa veiru. Ég hafði mestar áhyggjur af því að verða sá aðili sem myndi hugsanlega bera smit inn á spítalann. Fyrir mér var það mun verri tilhugsun en að smitast sjálfur.“

mbl.is