Falast ekki eftir lánsskömmtum í bili

Bólusetja á um 40.000 manns á landsvísu í þessari viku.
Bólusetja á um 40.000 manns á landsvísu í þessari viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðherra segir ekki til skoðunar sem stendur að fá lánaða bóluefnaskammta af þeim bóluefnum gegn Covid-19 sem Danir og Norðmenn ætla sér ekki að nota. Ástæðan fyrir þessu er sú að bólusetningar ganga vel hér á landi og segir ráðherrann útlit fyrir að um 45% þeirra 280.000 sem á að bjóða bólusetningu muni hafa fengið að minnsta kosti einn skammt í lok vikunnar.

Þá segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að markmiðið með tilviljanakenndri bólusetningu, eftir að bólusetningu forgangshópa er lokið, sé að ná hjarðónæmi fyrr en ella. 

„Það hefur verið skoðað, það er kannski ekki komið að því fyrr en við erum farin að vinna með síðasta hópinn eða tíunda hópinn,“ segir Svandís í samtali við mbl.is, spurð hvort verið sé að skoða að fara í tilviljanakennda bólusetningu.

„Miðað við reglugerðina sem ég hef gefið út í sambandi við forgangsröðun þá er í sjálfu sér ekkert innan reglugerðarinnar sem gefur tilefni til þess að breyta henni þó það væri farið í þessa tilviljanakenndu nálgun. Markmiðið með henni væri að ná hjarðónæmi fyrr og það hlýtur að vera verðugt markmið.“

45% þeirra sem á að bólusetja vonandi bólusettir í vikulok

Eins og greint var frá fyrr í dag verða engar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum í þessari viku þrátt fyrir að bólusetningar gangi vel og einungis eitt kórónuveirusmit hafi greinst utan sóttkvíar á síðastliðnum fjórum dögum. Afléttingaáætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir því að 20 til 200 manna samkomutakmörk séu í gildi í byrjun maímánaðar, og nú er einmitt sú byrjun. 

Er afléttingaáætlunin of bjartsýn? 

„Að minnsta kosti ekki hvað varðar bólusetningarnar, það er alveg ljóst að það gengur mjög vel. Við vorum í lok síðustu viku komin upp í 38%. Mér sýnist, miðað við það sem er áætlað í þessari viku, að við verðum komin hátt í 45% í vikulok þannig að þetta eru mjög stórar vikur í bólusetningu. Við erum í raun og veru á undan áætlun þar, sýnist mér að við séum að minnsta kosti tíu dögum, ef ekki tveimur vikum, á undan áætlun,“ segir Svandís. 

Svandís segir stöðuna á bólusetningum góða.
Svandís segir stöðuna á bólusetningum góða. mbl.is/Árni Sæberg

„Í góðum gír, akkúrat núna“

Í gær tilkynntu Danir að þeir ætluðu ekki að nota bóluefni Janssen vegna sjaldgæfra alvarlegra aukaverkana. Þá ætla Danir ekki heldur að nota bóluefni AstraZeneca og hafa Norðmenn tekið sömu ákvörðun. Íslendingar hafa fengið Astrazeneca bóluefnaskammta lánaða hjá Norðmönnum.

Aðspurð segir Svandís að íslensk stjórnvöld séu hvorki að falast eftir lánsskömmtum af bóluefni Janssen frá Dönum né bóluefni AstraZeneca frá Dönum og Norðmönnum, í það minnsta ekki sem stendur. 

„Ég held að við séum í góðum gír, akkúrat núna. Við erum bara á fullri ferð en þetta er allt saman undir,“ segir Svandís.

Svo við þyrftum í raun ekki á því að halda að fá eitthvað lánað, eins og staðan er í dag?

„Ég get ekki lagt mat á það núna, við höfum að minnsta kosti haft nóg efni til þess að bólusetja töluverðan fjölda, yfir 30.000 manns í þessari viku.“

Bólusetningar fyrst og fremst lýðheilsuaðgerð

Áhyggjuraddir frá fólki sem á að fá bóluefni AstraZeneca hafa heyrst í nokkurn tíma þó langflestir kjósi að þiggja bóluefnið. Samkvæmt vef Lyfjastofnunar sýnir bóluefnið um 60% virkni á meðan bóluefni Pfizer sýnir 95% virkni og bóluefni Moderna 94,1%. Spurð hvort það að gefa fólki bóluefni sem er ekki með mestu virknina stangist ekki á við lög sem kveða á um að sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita segir Svandís:

„Bólusetningar eru strangt til tekið fyrst og fremst lýðheilsuaðgerð og snúast um það og skoðast út frá því sjónarhorni. Sóttvarnalæknir raðar bæði upp forgangsröðuninni og síðan tekur hann ákvörðun um það hvaða hópar fá hvaða efni og það er allt saman miðað við þessi lýðheilsumarkmið sem er að ná hjarðónæmi í samfélaginu. Þetta er ekki heilbrigðisþjónusta í þeim skilningi að það sé verið að sinna þeim sem eru veikir.“

mbl.is