Ætla að gefa út sérleyfi fyrir akstur og lendingar

Enn gýs við Geldingadali.
Enn gýs við Geldingadali. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt ekki sé langt um liðið frá því gos hófst í Geldingadölum hafa landeigendur á Hrauni og Ísólfsskála mótað sér stefnu í grófum dráttum um aðkomu rekstrar og uppbyggingu á þeirra vegum á svæðinu.

Frá þessu greinir í minnisblaði starfshóps sem skipaður var til að leggja fram tillögur að upp­bygg­ingu í kringum eldgosið til lengri og skemmri tíma. Starfshópurinn lauk störfum á föstudag þegar hann skilaði minnisblaði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Þaðan fór minnisblaðið yfir í forsætisráðuneytið, til annars starfshóps sem skipaður var til verndar innviðum vegna eldsumbrota á Reykjanesi. Reyndi mbl.is að fá aðgang að minnisblaðinu á mánudag en fékk ekki fyrr en í dag. 

Ekki hættulaust fyrir umferð ferðamanna

Í minnisblaðinu er bent á að allt land í og við gosstöðvarnar sé í einkaeigu.

„Annars vegar er það jörðin Hraun sem nær m.a. til Geldingadala, Meradala og Nátthaga auk lands við Suðurstrandarveg þar sem upphaf gönguleiðar á gosstöðvarnar er. Hins vegar er það jörðin Ísólfsskáli sem er nær Suðurstrandarvegi en þar mun fyrirsjáanlega verða umferð vegna bílastæða og þjónustu við gossvæðið. Þegar land er í einkaeigu, líkt og er á gossvæðinu, er það úrlausnarefni landeiganda hvernig skuli farið með uppbyggingu áfangastaðar fyrir ferðamenn,“ segir í minnisblaðinu.

Hér sé hins vegar um að ræða nokkuð óvenjulegt tilfelli.

„Svæðið er ekki hættulaust fyrir umferð ferðamanna á meðan heitt hraun rennur og hætt er við gasmengun. Fyrirsjáanlegt er að áfangastaðurinn muni draga til sín verulega umferð ferðamanna á næstunni sem krefst nauðsynlegra innviða. Engir innviðir voru fyrir á svæðinu. Af þessum sökum er aðkoma margra annarra en landeigenda nauðsynleg til að bregðast við og samhæfa.“

Lagt er til að stígar og vegir verði lagðir.
Lagt er til að stígar og vegir verði lagðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja ekki takmarka umferð gangandi ferðafólks

Tekið er fram að landeigendur hafi áform um að reka bílastæði og þjónustu við ferðamenn í nálægð við Suðurstrandarveg, auk þess sem landeigendur Hrauns hyggist vera með fyrirkomulag sérleyfa til ferðaþjónustufyrirtækja til aksturs að gosstöðvum og lendingar þyrlna.

„Allur kostnaður við uppbyggingu tengt þessu verði þá borinn af þeim,“ segir í minnisblaðinu.

„Landeigendur hafa hins vegar ekki í hyggju að takmarka eða koma í veg fyrir umferð gangandi ferðamanna að gossvæðinu. Þegar ferðamenn eru komnir á svæðið hafi þeir allan aðgang að gossvæðinu innan þeirra marka sem öryggi og átroðningur á náttúru setur. Starfshópurinn hefur kynnt sér gögn frá Veðurstofunni um líklega þróun hraunrennslis á svæðinu og hvort líklegt sé að það hafi áhrif á framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í. Einnig sögulegar upplýsingar um veðurfar á svæðinu.“

Að undanförnu hafi verið unnið að því að koma rafmagni á svæðið og styrkja fjarskiptasamband.

„Slíkt er forsenda uppbyggingar á svæðinu. Neyðarlínan er að leggja rafstreng frá Grindavík að upphafi gönguleiðar. Þar munu svo HS-Veitur setja upp tengingu fyrir aðra að kaupa rafmagn.

Þá eru framkvæmdir á lokastigi við að koma á fjarskiptasambandi á svæðinu og mun það dekka svæðið allt. Neyðarlínan hefur unnið að þessu í samstarfi við símafélögin. Vegagerðin mun ætla að koma fyrir raflýsingu á Suðurstrandarvegi við innkeyrslu á bílastæði.“

Þjónustukjarni með veitingar og varning

Gróflega áætlar starfshópurinn að um 75.000 hafi samtals lagt leið sína að gosstöðvunum þegar minnisblaðið er skrifað í lok apríl.

Fullvíst megi telja að þegar fjöldi ferðamanna hér á landi verði kominn í það sem gera má ráð fyrir seinni hluta sumars verði heimsóknir á svæðið tvöfalt það sem hefur verið til þessa. Gosið í Fagradalsfjalli verði því einn fjölfarnasti áfangastaður landsins, ef ekki sá fjölfarnasti.

„Á meðal landeigenda er vilji til að byggja upp ferðaþjónustu til að taka á móti ferðamönnum. Undirbúningur er í gangi og hafa ráðgjafar verið fengnir til að vinna að skipulagi til lengri tíma. Eins og að framan er nefnt hyggjast landeigendur útbúa bílastæði og þjónustukjarna þar sem aðstaða verði fyrir sölu veitinga og varnings auk upplýsingamiðlunar til ferðamanna.“

Til stendur að þessi aðstaða verði byggð upp norðaustan við Suðurstrandarveg inni við Nátthagakrika, þaðan sem göngustígur liggur í átt að gosstöðvum.

„Áform eru um að bílastæði þar taki um 500 bíla á hverjum tíma auk þess að geta tekið við rútum í stæði. Innheimt verður gjald fyrir aðgang að bílastæðum. Við bílastæðin verður salernisaðstaða fyrir gesti.“

Ásóknin að gosinu hefur mest verið að kvöldi til, segir …
Ásóknin að gosinu hefur mest verið að kvöldi til, segir í minnisblaðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir bíla þurfi vegi

Bent er á að talsverður áhugi sé á því hjá ferðaþjónustufyrirtækjum að komast að gossvæðinu á bílum og þyrlum.

„Nú þegar er talsverð umferð á þyrlum á gosstöðvarnar. Landeigendur hyggjast semja við þyrlufyrirtæki um lendingar og semja við sérhæfða aðila um akstursaðgengi að gosstöðvunum. Fyrir bíla þarf vegi og munu landeigendur sjálfir annast þá vegagerð á sinn kostnað. Nú eru ekki aðrir vegir en reiðstígar á svæðinu og hafa þeir verið notaðir sem akvegir fyrir björgunarsveitir, fjölmiðla og vísindamenn.

Með frekari gatnagerð á svæðinu verður jafnframt möguleiki fyrir hreyfihamlaða og aðra sem treysta sér ekki að ganga til að nálgast gosið. Þetta mun einnig opna á umferð inn á svæðið þegar aðstæður til göngu eru slæmar, sérstaklega á haustin og veturna.“

Á næstu vikum verði bílastæðið útbúið ásamt því að aðgangsstýringu verði komið fyrir.

Ófremdarástand fyrstu dagana

Það landsvæði sem gosið og aðkomuleiðir þess ná til var að mestu án allra innviða.

„Fyrir utan Suðurstrandarveg var ekkert sem gat stutt þá miklu umferð sem þarf að svæðinu. Fyrstu dagana var því hálfgert ófremdarástand en bætt var úr því til bráðabirgða,“ segir í minnisblaðinu.

„Þegar gosið hófst var fjarskiptasamband takmarkað á gossvæðinu. Úr því var bætt til bráðabirgða í samstarfi símafélaganna og Neyðarlínunnar. Símasendi var komið fyrir á svæðinu sem fékk rafmagn frá dísilrafstöð. Úr þessu er nú verið að bæta með varanlegri hætti.

Verið er að leggja rafstreng og ljósleiðara frá Grindavík meðfram Suðurstrandarvegi að Borgarhrauni og þaðan á Langahrygg þar sem fjarskiptasendi hefur verið komið fyrir sem tryggir símasamband á svæðinu. Með því eykst öryggi verulega auk þess sem það gefur færi á að koma fyrir ýmsum stafrænum lausnum við umsjón og eftirlit svæðsins.“

Fjöldi manns hefur þegar lagt leið sína að gosstöðvunum.
Fjöldi manns hefur þegar lagt leið sína að gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdasjóður borgi lagningu stíga

Tekið er fram að réttur almennings til umferðar um land sé ríkur, enda sé gætt að því að nýting og verndun landsins sé ekki skert.

„Mikilvægt er að almenningur hafi þannig heimild til að ferðast óhindrað að gosinu og að byggð verði upp aðstaða til að svo geti orðið. Lagning göngustíga er forsenda þess. Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða standi undir kostnaði við lagningu stíga að gosstöðvum.

Einnig að leiðir sem eru utan stígakerfisins verði eftir atvikum stikaðar. Til að stuðla að auknu öryggi verði jafnframt lagðir í göngustígana rafstrengir til að tengja megi við rafmagn öryggismyndavélar og gasmælar auk mögulega annars fjarstýrðs öryggisbúnaðar. Fjarskiptasamband er á svæðinu til að koma upplýsingum áfram þar sem vakt er.

Útfæra þarf nánar í samstarfi við lögreglu og björgunarsveitir um kaup á slíkum búnaði og hvar honum verður komið fyrir. Þá þarf að ákveða hvernig aðgangi að vöktunarkerfi verði háttað.“

Við gerð göngustíga þurfi að gera ráð fyrir að þar komist einnig fyrir umferð vélknúinna ökutækja til nota fyrir björgunarsveitir, löggæslu og slíka þjónustu.

„Þótt vissulega sé gert ráð fyrir að vegir sem landeigendur leggja á svæðinu muni gagnast þessum aðilum er brýnt að göngustígar dugi jafnframt til þessa. Göngustígur sem þegar hefur verið byggður upp frá Suðurstrandarvegi og að rótum Borgarfjalls er þriggja metra breiður. Hann getur því borið umferð vélknúinna ökutækja.“

Leið A verði aðalgönguleiðin

Frá nýju bílastæði er áfram gert ráð fyrir tveimur gönguleiðum eins og nú er, leið A og leið B. Vegna aðstæðna í landslagi er gert ráð fyrir að leið A verði aðalleiðin en leið B frekar til vara þegar erfiðleikar eru á notkun leiðar A. Frá nýju bílastæði er áætlað að gönguleið A sé 2,6 km en leið B 3,0 km.

Lagt verði meira í leið A er varðar frágang enda verði hún aðalleiðin á gosslóðir.

„Skoðun á framkvæmdum vegna leiðar B er í vinnslu en hún verður á allan hátt einfaldari í gerð og umfangi. Eins og fyrr er nefnt er einnig reiknað með lagningu rafmagnsstrengja í og við göngustíga.

Áætlaður kostnaður við lagningu göngustíga ásamt rafmagnsstrengjum er 35 m.kr. Þar til viðbótar er kostnaður við kaup á sjálfvirkum vöktunarbúnaði. Lagt er til að landeigendur og ríkið geri með sér samning þar sem kveðið verði á um skuldbindingar hvors aðila er varðar uppbyggingu á svæðinu,“ segir í minnisblaðinu.

„Til þessa hefur öll stjórnun og gæsla á gossvæðinu verið í höndum lögreglu og björgunarsveita. Æskilegt er að undirbúa hvernig draga megi úr þessari viðveru þó þannig að öryggi gesta sé tryggt.

Þá þarf að huga að upplýsingamiðlun og leiðbeiningum til ferðamanna auk almennra landvörsluverkefna, eins og eftirliti og viðhaldi innviða. Vissulega mun það fara eftir umfangi ferðaþjónustu á svæðinu hversu mikil mönnun þarf að vera og þá skiptir framgangur gossins, veðurfar og dagsbirta máli.“

Áætlaður kostnaður við lagningu göngustíga ásamt rafmagnsstrengjum er 35 m.kr.
Áætlaður kostnaður við lagningu göngustíga ásamt rafmagnsstrengjum er 35 m.kr. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geta mannað vaktir út sumarið

Bent er á að Frá því að skipulagðar hafi verið vaktir björgunarsveitarmanna frá því gosið hófst.

Mikið hafi mætt á björgunarsveitum á Suðurnesjum en aðstoð borist frá björgunarsveitum um land allt. Um helgar hafi að jafnaði verið tvær vaktir á dag en ein vakt á virkum dögum.

„Vinna björgunarsveitarmanna hefur að mestu falist í að leiðbeina og gæta að því að ferðamenn fari ekki annars staðar um en ráðlegt er. Þá hafa björgunarsveitir verið með mælingar á gasi og þeim veitt aðstoð sem þurfa á því að halda sökum þreytu eða meiðsla. Mikið er um illa búið ferðafólk á svæðinu þótt það sé heldur að skána að mati björgunarsveitarmanna.

Landsbjörg hefur kannað vilja björgunarsveita um landið til að manna áfram gossvæðið og hefur komið í ljós að björgunarsveitir eru í stakk búnar að manna áfram vaktir a.m.k. út sumarið.“

Landverðir hefji störf eins fljótt og hægt er

Eftir því sem liðið hafi á gosið hafi ásóknin verið mest að kvöldi til og gestir að upplifa sjónarspil gossins í ljósaskiptunum.

„Um kl. 10 á kvöldin hafa björgunarsveitir beint fólki frá. Nú þegar bjart er lengur þarf að huga að því hvort beina eigi fólki frá svæðinu á tilteknum tíma þegar gæsla er ekki á svæðinu en viðbragðsaðilar telja óráðlegt að svæðið sé aðgengilegt án gæslu.

Að sama skapi þarf að skoða frekar hvort rafræn gæsla geti komið að einhverju leyti í staðinn fyrir mönnun á staðnum, t.d. með upplýsingaskiltum eða upplýsingaskjám, smáskilaboðum í síma, myndavélum og hljóðgjöfum.

Að mati starfshópsins er ástæða til að gefa viðbragðsaðilum tækifæri á að draga úr viðveru á svæðinu sé þess kostur. Það er hins vegar mikilvægt að tryggja eftirlit með umgengni, öryggi gesta og upplýsingagjöf. Tillaga hópsins er að ráða landverði til að sinna hluta af þeim verkefnum sem viðbragðsaðilar hafa verið að sinna, með eftirliti og upplýsingagjöf en jafnframt að kalla til aðstoð viðbragðsaðila ef þörf er á.

Ekki er ætlunin að landverðir komi í staðinn fyrir lögreglu eða aðra viðbragðsaðila eða gangi í störf þeirra. Lagt er til að landverðir hefji störf á svæðinu eins fljótt og hægt er og starfi á svæðinu til 31. ágúst nk. Umfang landvörslu verði þá endurmetið. Landverðir verða ráðnir af Umhverfisstofnun og vinna í samstarfi við landeigendur, Grindavíkurbæ og lögreglu.“

Björgunarsveitir geta staðið vaktina í sumar.
Björgunarsveitir geta staðið vaktina í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr jarðminjastaður að verða til

Athygli er vakin á að áfangastaðastofa Reykjaness og Reykjanesjarðvangur fari með forystuhutverk í markaðsetningu, uppbyggingu og fræðslu fyrir landshlutann. Þau séu samstarfsvettvangur sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana á Reykjanesi um þróun og framtíðarsýn ferðamála í landshlutanum.

Reykjanesjarðvangur sé svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.

„Í tilviki Reykjanesjarðvangs er einstakt á heimsvísu að Mið-Atlantshafshryggurinn stígur á land á Reykjanesi með tilheyrandi afleiðingum flekaskilanna og þ.m.t. eldvirkni. Eldgosið í Fagradalsfjalli er birtingamynd þess og er nýr jarðminjastaður að verða til. Þessi atburður er merkilegur að mörgu leyti og kemur til með að gegna mikilvægu hlutverki í fræðslu um svæðið og þróun þess í framtíðinni, vegna jarðsögu og áhrif á samfélagið.“

Gestastofa í Grindavík

Nú þegar hafi Reykjanesjarðvangur og Grindavíkurbær tekið fyrstu skref við undirbúningsvinnu við að kanna möguleika til að setja upp gestastofu í Grindavík um eldvirkni á Reykjanesi með sérstaka áherslu á eldgosið í Fagradalsfjalli. Áfangastaðastofa Reykjaness og Reykjanesjarðvangur leggi til að fjárstuðningur við gestastofuna falli undir aðgerðir sem starfshópnum er falið að vinna.

„Slík gestastofa yrði mikilvægur hluti af heildrænni upplifun gesta á svæðinu. Í þessu sambandi er horft til þess að nýta aðstöðu í Kvikunni sem er menningarhús Grindvíkinga í eigu bæjarfélagsins. Gagarín hefur verið að vinna að þróun og uppsetningu gestastofa jarðvangsins og er að vinna kostnaðarmat fyrir sýningu í Grindavík.“

mbl.is