Veikindi á leikskólum eftir bólusetningu

Nokkur veikindi eru meðal leikskólakennara eftir bólusetningu í gær.
Nokkur veikindi eru meðal leikskólakennara eftir bólusetningu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil veikindi eru meðal leikskólakennara á höfuðborgarsvæðinu í dag í kjölfar bólusetningar kennara í gær. Hefur víða þurft að vísa frá börnum, eða gert er ráð fyrir að börnin verði aðeins hálfan daginn á leikskólanum. Leikskólastjórar sem mbl.is hefur rætt við eru þó brattir og segja fyrst og fremst gott að byrjað sé að bólusetja.

Arndís Bjarnadóttir, leikskólastjóri á Björtuhlíð, segir að meira en 70% af starfsfólkinu sem hafi farið í bólusetningu í gær hafi tilkynnt veikindi í dag. Þá segir hún að öðrum, sem hafi mætt til vinnu eftir bólusetninguna, líði flestum þannig að þeir séu slappir en ekki nógu veikir til að vera heima.

Helmingur barnanna fari heim um hádegi

„Við verðum að senda heim í dag,“ segir hún um börnin og segist eiga von á því að um helmingur barnanna fari heim um hádegi. Í gær hafi þau látið foreldra vita að bólusetning væri fram undan og að miðað við reynsluna af þeim hingað til mætti eiga von á einhverri röskun á starfseminni í dag. Þau hafi þó tekið á móti öllum börnum í dag sem komu í leikskólann.

Arndís segist aðspurð þó lítið setja út á álagið sem þessu fylgi. „Við erum aðallega glöð að vera komin með bólusetninguna loksins,“ segir hún glöð í bragði.

15 af 20 sem fóru í bólusetningu veikir í dag

Staðan var svipuð á Mánagarði, en Soffía Emelía Bragadóttir leikskólastjóri segir að þar hafi 20 farið í bólusetningu og 15 þeirra verið veikir. Fimm starfsmenn höfðu þar áður fengið bóluefni og 11 fara á föstudaginn eða í næstu viku.

Soffía segist hafa sent út boð til foreldra í gær þar sem þeir sem gátu haldið börnunum heima voru hvattir til þess, en að gert væri ráð fyrir að hægt væri að taka við sem flestum börnum. Leikskólinn er staðsettur við háskólasvæðið og segir Soffía að börn fólks sem sé í prófum hafi verið sett í forgang. Hins vegar hafi þetta gengið mjög vel í dag og margir ætli að sækja börnin snemma. „Veðrið er líka með okkur og við ætlum að vera mikið úti,“ segir hún. Samtals eru 127 börn á leikskólanum og 3-4 með hvern hóp. Soffía segir að í dag verði í staðinn tveir með hvern hóp.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, hafði heyrt af veikindum starfsfólks í skólum og leikskólum þegar mbl.is náði sambandi við hann. Hins vegar væru ekki komnar heildartölur yfir veikindi í dag.

mbl.is