Sóttvarnahúsin „sleppa um helgina“

Frá sóttvarnahúsinu við Þórunnartún.
Frá sóttvarnahúsinu við Þórunnartún. Ljósmynd/mbl.is

„Þetta er samkvæmt áætlun og ætti allt að sleppa um helgina,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, um fjölda fólks sem gistir nú í sóttvarnahúsum á vegum Rauða krossins. 

Fyrir helgi var útlit fyrir mikinn fjölda komufarþega og ekki fyrirséð hvort sóttvarnahúsin myndu jafnvel fyllast. Rauði krossinn og stjórnendur sóttvarnahúsa þurfa að vinna í ákveðinni óvissu um hversu margir sem hingað til lands koma eru bólusettir eða með fyrri sýkingu af Covid-19, og hversu margir þiggja dvöl í sóttvarnahúsi að eigin frumkvæði. 

Eins og að spá í bolla

„Þetta er töluvert mikill fjöldi sem er að koma úr bandaríkjaflugi. Þar erum við að búast við að langflestir séu bólusettir eða með staðfestingu um fyrra smit,“ segir Gunnlaugur. 

„Þetta er svolítið eins og að spá í bolla,“ bætir hann við.

Gunnlaugur segir að allan tímann sem sóttvarnahúsin hafi verið rekin hafi verið stöðugur fjöldi sem til þeirra koma úr flugi frá Póllandi. „Það eru kannski þyngstu flugin fyrir okkur, ef svo má segja,“ segir Gunnlaugur.

mbl.is