Ætla að finna stað fyrir Fossvogslaug

Dagur B. Eggertsson og Ármann Kr. Ólafsson undirrita viljayfirlýsingu um …
Dagur B. Eggertsson og Ármann Kr. Ólafsson undirrita viljayfirlýsingu um Fossvogslaug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu í Fossvoginum um að finna nýrri sameiginlegri sundlaug bæjarfélaganna stað um miðbik Fossvogsdals. Þá á laugin að vera í göngufæri frá grunnskólum dalsins, Snælandsskóla og Fossvogsskóla.

Tímasetning á uppbyggingu laugarinnar liggur ekki enn fyrir en sveitarfélögin tvö hafa sameiginlega efnt til hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

„Áætlun um framkvæmdir verður gerð þegar hönnun, endanleg kostnaðaráætlun og fjármögnun vegna laugarinnar liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að kostnaður skiptist til helminga, óháð endanlegri staðsetningu laugarinnar. Búist er við að aðgengi og umferð verði sá þáttur hönnunarsamkeppninnar sem verði hvað viðkvæmastur,” segir í fréttatilkynningu.

„Þetta er mjög viðkvæmt svæði þannig að samkeppnin er mikilvæg til þess að finna bestu mögulegu staðsetningu hérna á svæðinu,“ segir Ármann í samtali við mbl.is.

Einungis bílastæði fyrir fatlaða

Þá er stefnt að því að sundlaugin verði byggð samkvæmt grænum stöðlum og því verða einungis bílastæði fyrir fatlað fólk og aðföng. Segir í fréttatilkynningu að að öðru leyti muni laugin þjóna nærliggjandi hverfum og gangandi og hjólandi gestum.

Hvorki Dagur né Ármann hafa áhyggjur af því að í ljósi bílastæðaleysis við laugina sjálfa muni aðliggjandi hverfin, Kópavogur og Fossvogur, fyllast af bílum.

„Þegar við fórum af stað og fleyttum hugmyndinni þá heyrðum við bæði úr Kópavoginum og Fossvoginum að áhyggjurnar voru helst af því að það myndi fylgja þessu mikil umferð. Með hliðsjón af því hvað það er ótrúlega mikil og skemmtileg traffík í dalnum þá viljum við láta reyna á það að þetta verði mjög grænt verkefni og í meginatriðum komi fólk gangandi og hjólandi,“ segir Dagur og bætir við: „Dalurinn er þéttbyggður báðum megin svo það ættu að vera allar forsendur til þess.“

Dagur B. Eggertsson og Ármann Kr. Ólafsson.
Dagur B. Eggertsson og Ármann Kr. Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ármann bendir á að þegar skýrsla um fyrirhugaða Fossvogslaug kom út fyrir fjórum árum síðan þá þótti það sérstakt að ætla að byggja sundlaug án bílastæða. Nú sé ástandið þó breytt og þeir sem komi í dalinn komi gangandi og hjólandi.

„Traffíkin hér í gegnum dalinn eykst viku eftir viku og gangandi og hjólandi eru að verða miklu fleiri,“ segir Ármann og bætir við: „Ég held að þessi hugmynd hafi elst mjög vel.“

Hefur verið löng meðganga

Mbl.is fjallaði um fyrirhugaða Fossvogslaug Reykjavíkur og Kópavogs í janúar 2012 og hugmyndin hefur því verið í bígerð í níu ár. „Ef níu mánuðir er eðlilega meðganga þá hefur þessi verið nokkuð lengi,“ segir Dagur.

Nú eru margir íbúar Reykjavíkur með kort sem gilda í sundlaugar borgarinnar. Dagur segist vonast til þess að slík korti muni gilda í fyrirhugaða Fossvogslaug en það sé eitt af nokkrum sameiginlegum útfærsluatriðum sem þurfi að glíma við þegar Reykjavík og Kópavogur eru komin í sameiginlegan rekstur.  

„Út frá okkar sjónarmiði þá sýnist okkur að í raun og veru eru flestir Reykvíkingar með sundlaug í þægilegu göngu- eða hjólafæri nema hér. Þannig að við sjáum þetta sem bara okkar lykillífsgæði sem borg“ segir Dagur.

Ármann bendir á að sundlaugin sé ekki síður fyrirhuguð fyrir skólasund en skólasundið í Kópavogi sé sprungið. Þá hefur einnig þurft að keyra nemendur Fossvogsskóla í sund.

Fyrsti sameiginlegi reksturinn milli sveitarfélaga

Segir í fréttatilkynningu að ljóst sé að staðsetning Fossvogslaugar kalli á breytingu á skipulagi beggja sveitarfélaga, en þau hafa sameiginlega verið með breytingar á heildardeiliskipulagi dalsins í undirbúningi um hríð. Skipulagsvinnu verður lokið þegar niðurstaða hönnunarsamkeppni Fossvogslaugar liggur fyrir.

Aðspurður hvort sveitarfélögin tvö ætli að ráðast í frekari samvinnuverkefni segir Dagur að næsta samvinnuverkefni sé með Vegagerðinni og það verði að brúa Fossvoginn yfir í Kársnesið en það muni færa sveitarfélögin tvö enn nær hvort öðru.

Ármann bendir á að það sé eitt að byggja mannvirki saman og annað að reka hlutina saman en að í því sé fólginn gríðarlega mikill sparnaður. „Ég held að það sé á útleið að hugsa þetta endilega eftir því hvar sveitarfélagamörk liggja. Við erum í samstarfi með rekstur golfvallar og hestamannaaðstöðu með Garðabæ og nú látum við reyna á sennilega fyrsta sameiginlega reksturinn á milli sveitarfélaga hérna á sveitarfélagamörkum í Fossvoginum,“ segir Ármann.

mbl.is

Bloggað um fréttina