Handahófs-bólusetning mögulega í þarnæstu viku

Um og yfir 15 þúsund manns verða bólusettir í næstu …
Um og yfir 15 þúsund manns verða bólusettir í næstu viku. Forgangshóparnir klárast senn og horft er til þess að hefja handahófs-bólusetningu í þarnæstu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir þeir sem teljast vera með undirliggjandi sjúkdóma, og tilheyra þannig forgangshópi sjö, munu hafa fengið boð í bólusetningu við kórónuveirunni eftir næstu viku. Þar með talið er fólk sem t.a.m. er á kvíða- og þunglyndislyfjum. Þá mun handahófs-bólusetning mögulega hefjast í þarnæstu viku.

Um og yfir 15 þúsund bóluefnisskammtar gegn kórónuveirunni verða gefnir í næstu viku, um 7 þúsund Moderna-skammtar á mánudag, annað eins af Pfizer á þriðjudag og svo um 2 þúsund Jansen-skammtar á fimmtudag. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Fer að síga á seinni hlutann

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is. Sem fyrr segir hún að bólusetningar gangi glimrandi vel og aðeins stöku sinnum falli fólk í yfirlið, eins og búast má við þegar verið er að bólusetja tugþúsund manns í mánuði hverjum. 

„Þetta eru bara hópar þeirra sem teljast til fólks með undirliggjandi sjúkdóma, semsagt fólk í forgangshópi sjö, og það kemur ekkert frekar fram hvaða sjúkdómar það eru, við fáum bara lista frá Landlækni. En við erum semsagt að klára þennan hóp núna og því ættu allir með undirliggjandi sjúkdóma að hafa fengið boð eftir næstu viku,“ segir Ragnheiður.

„Við eigum reyndar eftir hóp í forgangshópi sjö, sem eru semsagt foreldrar barna með langvinna sjúkdóma. Bara af því við höfum ekki ennþá fengið lista yfir þá einstaklinga frá Landlækni.“

Aðspurð segir Ragnheiður að ekki sé búið að ákveða hver …
Aðspurð segir Ragnheiður að ekki sé búið að ákveða hver þeyti skífum í Laugardalshöllinni í næstu viku. Til undrunar blaðamanns, sem spurði nú bara í gríni, er það þó á forræði Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að ákveða slíkt. Ragnheiður segir að plötusnúðar geti haft samband og boðið fram aðstoð sína. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handahófs-bólusetning mögulega í þarnæstu viku

Ragnheiður segir að „við séum langt komin“ með að bólusetja alla í forgangshópi átta, sem  kennarar og fólk í félagsþjónustu tilheyrir. Eins er fólk í forgangshópi níu, þeir sem eru jaðarsettir í samfélaginu eða eiga hættu á að einangrast félagslega, margir búnir að fá boð í bólusetningu. 

Að því loknu hefst handahófsbólusetning, sem Ragnheiður segir að verði mögulega í þarnæstu viku. 

„Já, þegar við erum búin með sjö, átta og níu þá dettum við bara í handahófs-bólusetningar.“

Er einhver svona fyrirhuguð dagsetning nákvæmlega hvenær það hefst?

„Nei, ekki nákvæmlega, en ég gæti alveg trúað að það yrði í þarnæstu viku. Það fer eftir því hvað við fáum mikið af bóluefni.

mbl.is