Lögreglumaður hlýtur 45 daga dóm fyrir líkamsárás

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir lögreglumanni fyrir líkamsárás á mann sem hafði verið handtekinn á skemmtistaðnum The Irishman pub í nóvember árið 2019. Segir í dómi Landsréttar að lögreglumaðurinn hafi slegið manninn tvívegis í andlitið og þvingað hann í sársaukastöðu þrívegis án nægilegrar ástæðu. Var meðal annars notast við myndbandsupptökur úr myndbandstökubúnaði í lögreglubílnum.

Fór ekki offari við að koma manninum inn í lögreglubílinn

Lögreglumaðurinn hafði verið ákærður fyrir bæði að slá manninn aftan í höfuðið við að reyna að koma honum inn í lögreglubíl og einnig fyrir að hafa slegið hann inn í lögreglubílnum, þrýst hné sínu á háls mannsins og þvingað hann handjárnaðan ítrekað í sársaukastöðu. Hafi maðurinn meðal annars tognað vegna þessa og fengið ofreynslu á hálshrygg.

Í dómi Landsréttar segir að ekki verði talið sannað að lögreglumaðurinn hafi farið offari við að koma manninum inn í bifreiðina, en vísað er til þess að maðurinn hafi bæði verið ógnandi og neitað að fara að fyrirmælum lögregluþjóna.

Sló manninn og þvingaði í sársaukastöðu án nægjanlegrar ástæðu

Landsréttur telur hins vegar að þegar búið var að koma manninum handjárnuðum inn í lögreglubifreiðina hafi hann ekki verið ógnandi. Þar hafi lögreglumaðurinn slegið manninn tvisvar í andlitið og þrýst hné sínu á háls mannsins og höfuð og þvingað hann í sársaukastöðu. Segir Landsréttur að ekki hafi komið fram nægjanleg ástæða fyrir þessari meðferð á manninum, en lögregluþjónninn gekkst við því fyrir Landsrétti að hafa einu sinni gert það án nægjanlegrar ástæðu. Dómurinn telur hins vegar að skiptin séu þrjú.

Landsréttur telur hins vegar ósannað að meðferð lögregluþjónsins hafi valdið manninum tognun og ofreynslu á hálshrygg, eins og ákært var fyrir. Er því sýknað fyrir þann hluta málsins.

Er það niðurstaða Landsréttar að dæma manninn í 45 daga skilorðsbundið fangelsi vegna málsins og að greiða sakarkostnað málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert