Ný tillaga að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla auglýst

Samþykkt var að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla …
Samþykkt var að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla í vikunni. mbl.is/Eggert

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum á miðvikudaginn að auglýsa framlagða tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir Rauðhóla, en svæðið var fyrst friðlýst árið 1974 ásamt aðliggjandi svæði í kringum Heiðmerkurveg yfir brúna að Helluvatni sem fólkvangur. Í tillögunni eru aðalleiðir gangandi og ríðandi um svæðið festar inn á skipulagsáætlun. Þá er nýtt bílastæðahólf skilgreint sem upphafsstaður fyrir aðkomu inn í Rauðhólana fyrir þá sem koma akandi að svæðinu.

Fólkvangurinn er í heild 1,3 ferkílómetrar að stærð, en það er innan borgarhluta Árbæjar auk þess að ná að hluta inn á jörðina Elliðavatn sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Nær deiliskipulagið aðeins út fyrir jaðar fólkvagnsins og er samtals um 145 hektarar að stærð.

Fram kemur í greinargerð með deiliskipulaginu að meðal markmiða þess sé að skilgreina aðalleiðir gangandi og ríðandi um svæðið og auka upplifun ólíkra útivistarhópa í sátt við náttúruna. Þá sé akstursleið um Heiðmerkurveg skilgreind og skoðað hvort bæta þurfi eða færa tengingu inn í átt að Heiðmörk. Bílastæði séu skilgreind við Rauðhóla og settar fram áætlanir um hvernig styrkja megi tengingar við græna stíginn um svæðið sem á að liggja innan græna trefilsins, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörkum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Kort af Rauðhólasvæðinu samkvæmt deiliskipulaginu.
Kort af Rauðhólasvæðinu samkvæmt deiliskipulaginu. Kort/Reykjavíkurborg

Þá er þess einnig getið að skilgreindar verði sérstakar aðgerðir sem skal viðhafa þar sem Rauðhólar eru á skilgreindu vatnsverndarsvæði og nálægt brunnsvæði. Að lokum verði skilgreint hvaða tegundir af umferð eða athöfnum verði ekki leyfilegar á svæðinu.

„Hér er verið að bæta alla umgjörð í kringum umferð gangandi, hjólandi og reiðfólks um svæðið. Að sama skapi er verið að setja skýrari ramma í kringum ágang vegna aksturs með bílastæðahólfi. Rauðhólar sem eru röð gervigíga er mikilvægt jarðfræðilegt svæði með dýrmætum minjum sem ber að vernda sem allra best. Hér er verið að styðja við góða upplifun fjölbreyttra útivistarhópa af þessu merkilega svæði í sátt við náttúruna,“ segir í bókun meirihlutans vegna málsins.

Samkvæmt deiliskipulaginu verða fjórar mismunandi gerðir stíga um svæðið fyrir utan akveginn. Fyrst er þar að nefna stofnstíg, en það eru um fjögurra metra breiðir stígar, yfirleitt með malbikuðu yfirborði, og eru meginsamgönguæð gangandi og hjólandi vegfarenda og aðallega ætlaðir þeim hópum. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að það verði Heiðmerkurvegur auk leiðar frá Helluvatni að Norðlingaholti, vestan megin við Rauðhólana sjálfa.

Nokkrar reiðleiðir eru í gegnum Rauðhóla, en þær verða eingöngu …
Nokkrar reiðleiðir eru í gegnum Rauðhóla, en þær verða eingöngu hugsaðar fyrir hestaumferð samkvæmt skipulaginu.

Í öðru lagi er um að ræða útivistarstíga, en það eru stígar eða slóðar með lausu yfirborði, um 1-2 metrar á breidd sem eru einungis ætlaðir gangandi fólki. Samkvæmt deiliskipulaginu ná slíkir stígar hringinn í kringum Rauðhólana og tenging þaðan við Norðlingaholtið.

Í þriðja lagi eru náttúrustígar. Þeir eru aðeins skilgreindir sem „núverandi slóði og ekki endilega aðgengilegir öllum,“ segir í deiliskipulaginu og mynda nokkrIr slíkir gönguleiðir í kringum Stóra-Rauðhól.

Í fjórða lagi eru reiðleiðir og hestaáning, en samkvæmt deiliskipulaginu liggja reiðleiðir í gegnum Rauðhóla og tengja þar saman hesthúsahverfin í Almannadal, Fjárborg og Víðidal. Innan skilgreindra og afmarkaðra reiðleiða er einungis gert ráð fyrir umferð hesta og hestamanna. Áning hesta verður á tveimur stöðum innan svæðisins, við útsýnisstað og austan Bugðu.  

mbl.is