Spá 10,5% hækkun íbúðaverðs

mbl.is

Fasteignamarkaðurinn tók verulega við sér í vor í kjölfar vaxtalækkana. Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala, en að það hægi verulega á hækkunartaktinum næstu ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hagspá Landsbankans og kom út í morgun.

„Mælingum Hagstofunnar og Þjóðskrár á hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu ber ekki saman. Hækkunin virðist töluvert meiri að mati Hagstofunnar en Þjóðskrár, þó staðan hafi breyst talsvert þegar Þjóðskrá leiðrétti mánaðargamlar tölur um hækkun íbúðaverðs í mars.  Við leiðréttinguna fór 12 mánaða hækkun sérbýlis úr 9,9% í 13,6% og fjölbýlis úr 8% í 9,5%. Vegin hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu varð við breytinguna 10,7% í stað 8,9%,“ segir í hagspánni.

Hagfræðideildin spáir því að áfram verði spenna á fasteignamarkaði meðan vextir eru lágir og takmarkanir á annarri neyslu fólks vegna faraldursins verða við lýði. Þegar efnahagsástandið breytist og vextir hækka er líklegt að það dragi úr eftirspurn eftir húsnæði en eftirspurnin hefur aukist mest eftir sérbýli og dýrari eignum.

Einnig sé viðbúið að áherslur einstaklinga í neyslu og fjárfestingum breytist þegar vextir hækka og t.d. ferðalög verða algengari. Undir lok spátímans megi gera ráð fyrir því að aðflutningur fólks verði meiri hingað til lands, m.a. til þess að starfa í ferðaþjónustu. Gangi uppbyggingaráform eftir má þó gera ráð fyrir því að þeirri þörf verði mætt og þrýstingur á húsnæðisverð því lítill. 

Hagspáin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert