Segir nefndarmenn undir hæl Sjálfstæðisflokks

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurður

Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði nefndarmenn Framsóknar og Vinstri grænna vera undir hæl Sjálfstæðisflokksins í dag eftir að þeir studdu ekki bókun minnihluta utanríkisnefndar um átök á Gasaströnd.

Rósa Björk hélt þessu fram á þingfundi í dag og sagði það vonbrigði og með ólíkindum að þessir þingmenn hafi ekki treyst sér til þess að taka einarða afstöðu í þessu máli.

Í umræddri bókun var utanríkisráðherra Norðurlandanna hvattur til þess að beita sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi til að koma á tafarlausu vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs. Sigríður Andersen, formaður nefndarinnar, telur þessa gagnrýni ómarkverða.

Ekki treyst sér til að taka þátt

Þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Miðflokks samþykktu bókunina, Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknar sagði í viðtali við Kjarnann að þeim fyndist að þeim vegið með þessum orðum.

Þingflokkur Framsóknar hefur sent frá sér yfirlýsingu um þetta tiltekna málefni og að flokkurinn hafi miklar áhyggjur af málinu. Hann hafi ekki samþykkt bókunina vegna þess að bókanir séu almennt gerðar við afgreiðslu mála en ekki til þess að lýsa afstöðu nefndarmanna til tiltekinna mála.

Sigríður Á. Andersen gaf lítið fyrir málflutning þennan um þingmennina. Þeir hefðu ekki treyst sér til að taka þátt í bókuninni og að með þessu hafi Rósa vegið ómaklega að þeim. 

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl/Arnþór Birkisson
mbl.is