Færeyjar af græna listanum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færeyjar verða teknar af grænum lista Íslendinga vegna þeirra smita sem hafa verið að greinast þar að undanförnu. Grænland verður aftur á móti áfram á lista yfir lágáhættusvæði.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á von á að Færeyjar fari af listanum yfir lágáhættusvæði strax á morgun. Þetta verði með þessum hætti þangað til Færeyjar hafi komist yfir smitin sem þar eru. Á meðan þurfa þeir sem koma frá Færeyjum til Íslands að undirganga sömu ráðstafanir og aðrir á landamærunum. 

Eitt smit greindist utan sóttkvíar á höfuðborgarsvæðinu í gær og að sögn Þórólfs er smitrakning í fullum gangi vegna þessa. Alls eru 19 smit á höfuðborgarsvæðinu og 85 í sóttkví þannig að það hefur fjölgað talsvert í sóttkví á svæðinu frá því síðast greindist smit þar í síðustu viku.

Þórólfur segir að þetta líti vel út en þrátt fyrir að töluvert hafi verið slakað á í dag þá verði fólk að gæta vel að sér og fara varlega, að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum. „Þetta er ekki búið og við getum fengið bakslag það er alveg klárt,“ segir Þórólfur.

Hann segir mikilvægt að þangað til gott samfélagslegt ónæmi næst, sem verður kannski ekki fyrr en um miðjan júní, þurfum við að halda áfram að passa okkur sem einstaklingar.

mbl.is