Íslandsbanki gefur 203 listaverk

Bankinn fær þó enn að hafa í vörslu sinni 51 …
Bankinn fær þó enn að hafa í vörslu sinni 51 verk sem hann nýtir í starfsemi sinni mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsbanki hefur ákveðið að gefa listaverkasafn bankans, sem telur 203 verk, til Listasafns Íslands og annarra viðurkenndra safna. Bankinn fær þó enn að hafa í vörslu sinni 51 verk sem hann nýtir í starfsemi sinni. Um þau verður gerður tímabundinn vörslusamningur milli bankans og Listasafns Íslands.

Forsaga gjafarinnar

 „Árið 2009 voru gerðar nafnaskýrslur yfir listaverkaeign allra bankanna og Íslandsbanki á mikið af listaverkum eins og hinir bankarnir frá gamalli tíð. Það sem setur þetta mál af stað núna er sú staðreynd að forstöðumaður listasafnsins vakti athygli stjórnvalda á því að nú væri mögulega tækifæri til þess að skoða málið aftur,“ sagði Tómas Sigurðsson, yfirlögfræðingur Íslandsbanka í samtali við mbl.is

forstöðumaður listasafnsins vakti athygli stjórnvalda á því að nú væri …
forstöðumaður listasafnsins vakti athygli stjórnvalda á því að nú væri mögulega tækifæri til þess að skoða málið aftur, mbl.is/Júlíus

Hann segir að athygli bankans hafi verið vakin á bréfi frá listasafninu til menntamálaráðherra. „Við unnum málið á forsendum bankans og fengum á endanum samþykki frá Bankasýslu ríkisins á hluthafafundi í gær. Þeir hafa svo kannski ráðfært sig við einhvern í stjórnarráðinu en þetta er örugglega ekki af þeirri stærðargráðu að fundað hafi verið um þetta sérstaklega,“ bætti Tómas við en hann tekur fram að ráðherra hafi ekkert beitt sér í málinu.

Tímasetningin tengd útboðinu

Aðspurður segist Tómas reikna með að tímasetningin á gjöfinni tengist útboðinu en Bankasýsla ríkisins er nú á lokametrunum að undirbúa Íslandsbanka undir hlutafjárútboð og verður hann þá ekki lengur í eigu ríkisins. Fyr­ir­hugað útboð mun ná til þegar út­gef­inna hluta í Íslands­banka. Útboðið og tíma­setn­ing þess er m.a. háð markaðsaðstæðum. Að öllu óbreyttu gæti útboðið farið fram á öðrum árs­fjórðungi 2021 að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá stofnuninni.

„Listaverkasafnið hefur verðmæti og þess vegna er gott að þiggjandinn og gefandinn sé sami aðilinn. Ríkið er auðvitað eigandi Listasafns íslands og líka eigandi allra hluta Íslandsbanka eins og stendur.“

Jákvæð ímynd mikilvæg

Þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru gerðir að hlutafélögum í kringum aldamótin tóku félögin yfir allar eignir og skuldir bankanna, þar með talin listaverk í eigu þeirra. Þannig urðu verkin að eign hluthafanna svo ríkið gat ekki tekið til sín verkin nema kaupa þau af hluthöfum bankans.

mbl.is

Tómas segir að umræðan á sínum tíma um að listaverkin fylgdu bönkunum í einkavæðingu hafi verið afar neikvæð. Hefði slík umræða ekki góð áhrif á ímynd bankans. Hann segir banka sem starfa á neytendamarkaði hafa heilmikið undir jákvæðri ímynd og því réttlæti það að fórna þeim verðmætum sem felast í listaverkasafninu.

Áhrif á bókhaldið en ekki kaupvilja

„Hluthafarnir eru upplýstir um eignir bankans. Þetta hefur jú, bókhaldslegar afleiðingar en það skiptir ekki máli í stóra samhenginu. Frá sjónarhóli þeirra sem munu kaupa hlut í bankanum, þá íslenskra fjárfesta og erlendra fagfjárfesta, tel ég ekki að þetta ætti að hafa áhrif á kaupvilja þeirra.

„Er þetta hið besta mál fyrir bankann sjálfan. Við eigum mikið af listaverkum og mikill meirihluti þeirra er nú í geymsluhúsnæði og við stöndum straum af kostnaði við að geyma verkin. Okkur þótti þau betur komin í höndum listasafnsins en í höndum bankans sjálfs. Bankinn átti mikið af listaverkum sem listasafnið hafði áhuga á að fá. Það fór bara ágætlega saman við framtíðarsýn bankans um þennan málaflokk. Listaverkasöfnun, umhirða og varsla er sannarlega ekki eitt af því sem bankinn gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur í. Við höfum ekki tekjur af þessu heldur,“ segir Tómas

Vönduð og fjölbreytt safneign

Í fréttatilkynningu bankans segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að gjöfin sé vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á húsnæði bankans undanfarin ár með fækkun útibúa. Stjórn bankans telji því að verkin séu best komin í vörslu opinberra listasafna þar sem fleiri geti notið þeirra.

„Listfræðilegt mat sem fór fram fyrir rúmum 10 árum á safneign Íslandsbanka sýndi vandaða og fjölbreytta safneign og það er traustvekjandi að finna þá samstöðu sem hefur ríkt innan bankans um að gefa verk sem hafa verið flokkuð sem þjóðargersemar til okkar,“ sagði Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, Í þessari sömu tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert