„Bæjarstjórn verður að gyrða sig í brók“

Orri Árnason arkitekt hjá Zeppelin arkitektum.
Orri Árnason arkitekt hjá Zeppelin arkitektum. Aðsend

Orri Árnason, arkitekt hjá Zeppelin arkitektum, segir furðulegt að Akureyrarbær hafi sniðgengið tillögu hans og byggingaverktakans SS Byggir að uppbyggingu á Oddeyrarreitnum. Rafræn íbúakosning stendur nú yfir á vef sveitarfélagsins og eru þrjár tillögur undir. Kosningunni lýkur á morgun.

Tillögurnar þrjár lúta einungis að byggingamagni og hæð bygginga á svæðinu og lítið gefið til kynna um framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Tillögurnar sem kosið um eru 3-4 hæða hús, 5-6 hæða og 6-8 hæða.

„Það skýtur skökku við að bæjaryfirvöld skuli efna til ráðgefandi íbúakosningar um kosti sem ekkert tengjast þeim hugmyndum sem lagðar hafa verið fram af eina aðilanum sem þó hefur sýnt vilja til að byggja upp reitinn og lagt í það mikinn kostnað og tíma. Bæjarstjórn teflir hins vegar eingöngu fram hugmyndum um mismunandi hæð húsa, án frekari framtíðarsýnar og vill láta kjósa um þar á milli. Það er augljós að hún áttar sig ekki á möguleikunum sem í svæðinu felast og hefur hvorki sýn né forystu í málinu,“ segir Orri.

Hann segir ólíklegt að kosningin muni leiða til nokkurs nema áframhaldandi ágreinings um efnið þar sem valkostirnir séu svo margir að hver muni túlka niðurstöðuna með sínu nefi. 

„Bæjarstjórn verður að gyrða sig í brók og leyfa Akureyringum að kjósa um skýra kosti, svo löngu tímabær uppbygging Gránufélagsreits geti hafist.“

Zeppelin arkitektar og SS Byggir byrjuðu að teikna upp tillögur …
Zeppelin arkitektar og SS Byggir byrjuðu að teikna upp tillögur að skipulagi á svæðinu í lok árs 2017 og kynntu tillögu sína um Seglin við Pollinn á íbúafundi fyrir um tveimur árum. Aðsend

Karpað um svæðið í mörg ár

Zeppelin arkitektar og SS Byggir byrjuðu að teikna upp tillögur að skipulagi á svæðinu í lok árs 2017 og kynntu tillögu sína um Seglin við Pollinn á íbúafundi fyrir um tveimur árum. Að sögn Orra hefur enginn annar byggingaverktaki af sömu stærðargráðu sýnt svæðinu áhuga um áratuga skeið. Því sé skrítið að hugmyndin sé algjörlega sniðgengin í kosningunni. 

Íbúakosningin um tillögur að svæðinu á sér langan aðdraganda og hefur verið karpað um svæðið til fjölda ára. Orri segir svæðið vera olnbogabarn í skipulagsmálum hjá Akureyrar til margra ára og að svæðið vera í mikilli niðurníðslu.

Zeppelin arkitektar unnu þrjár hugmyndir að reitnum. Í fyrstu tillögunni var unnið með form og liti farþegaskipa fyrri tíma, í annarri tillögunni var tekið mið af vöruhúsum á hafnarbökkum, en nú tíðkast víða að gömlum vöruhúsum sé gefið nýtt hlutverk og oft með góðum árangri, og í þriðju tillögunni, sem hlotið hefur vinnuheitið „Seglin við Pollinn“, var unnið með sögu Gránufélagsins.

Orri segir að það hefði verið sanngirnis- og réttlætismál að …
Orri segir að það hefði verið sanngirnis- og réttlætismál að út því ákveðið hefur verið að kjósa um skipulag reitsins hefði átt að kjósa um tillögu frá þeim aðilum sem hafi kostað tugum milljóna í að skipuleggja reitinn. Aðsend

Orri segir Seglin við Pollinn vera nærtækustu hugmyndina. Þar sé vísað í sögu Akureyrar og Gránufélagsins. Með vísun í Gránufélagið sé verið að samtvinna sögu bæjarins, verslunarsögu og lýðveldisbaráttuna. Byggingarnar myndu líta út eins og segl á skútum og draga nöfn sín af fjórum seglskútum félagsins, Gránu, Hertu, Rósu og Njáls.

Að hans mati yrði Seglin við Pollinn kjölfestan í framtíðaruppbyggingu svæðisins.  

Byggingarnar væru auk þess hlið að Akureyri, en þar færu um tugir risastórra farþegaskipa sem flytja tugþúsundir ferðamanna og fyrsta sýn þeirra á bæinn eru illa hirt svæði. Á því yrði algjör bylting ef Seglin við Pollinn fengju vind í seglin. 

Orri segir að það hefði verið sanngirnis- og réttlætismál að út því ákveðið hefur verið að kjósa um skipulag reitsins hefði átt að kjósa um tillögu frá þeim aðilum sem hafi kostað tugum milljóna í að skipuleggja reitinn. 

„Við sem að málinu höfum unnið um nokkurra ára skeið teljum að úr því ákveðið var að fara út í ráðgefandi kosningu hefði eingöngu átt að kjósa um þann valkost sem við hjá Zeppelin arkitektum lögðum fram fyrir SS Byggi. Út úr slíkri kosningu hefði mögulega fengist skýr niðurstaða um vilja íbúa. Það varð ekki og því er illskást að kjósa hæsta möguleikann sem nú er í boði, en eingöngu með því myndu Akureyringar senda skýr skilaboð um vilja sinn til að hefja loks uppbyggingu Oddeyrar,“ segir Orri.

Hér fyrir neðan má sjá tillögu Zeppelin Arkitekta, Seglin við Pollinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert