Egill hlaut riddaranafnbót frá Frakklandi

Egill Helgason hlaut frönsku orðuna, ordre national du mérite.
Egill Helgason hlaut frönsku orðuna, ordre national du mérite. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alveg alsæll með að fá þetta,“ segir Egill Helgason fjölmiðlamaður, en hann hlaut í dag orðu frá franska sendiráðinu sem nefnist Ordre national du mérite.

Egill greindi fyrst frá orðunni á Facebook-síðu sinni en í samtali við mbl.is segir Egill orðuna vera eins konar riddaranafnbót. 

Forsetar, rithöfundar og íþróttamenn

Egill nam fjölmiðlafræði í París áður fyrr og segist alltaf hafa haldið í sterka tengingu við Frakkland. „Í gegnum tíðina hef ég tekið mikið af viðtölum við alls konar Frakka á frönsku og reynt að breiða út franska menningu með ýmsum hætti,“ segir Egill og bætir við að hann hafi líka aðstoðað franska sendiráðið.

Á meðal viðmælanda Egils í gegnum tíðina hafa verið forsetar og forsætisráðherrar, rithöfundar, kvikmyndastjörnur og íþróttamenn. „Ég hef reynt að nota frönskuna eins og ég get.“

Graham Paul, sendiherra Frakklands, afhenti Agli orðuna í dag.
Graham Paul, sendiherra Frakklands, afhenti Agli orðuna í dag. Ljósmynd/Aðsend

Leyfir sér að vera hégómlegur

Orðan er veitt af Emmanuel Macron, Frakklandsforseta, og er meðfylgjandi skjal því undirritað af honum. Graham Paul, sendiherra Frakklands, afhenti Agli orðuna við hátíðlega athöfn í dag. 

„Þetta kom skemmtilega á óvart. Það er voða gaman að fá þessa viðurkenningu frá Frakklandi þar sem ég hef haft mikinn áhuga og ást á landinu alveg síðan ég var krakki.“

„Maður leyfir sér alveg að vera pínu hégómlegur stundum og ætla bara að leyfa mér að vera það í dag,“ segir Egill kíminn.

Hann segir orðuna vera mjög fallega en hún fái þó bara að njóta sín á heimili Egils, „ég held það séu ekki mörg tækifæri til þess að ganga um með orðuna. Maður fer ekkert bara með hana inn á barinn eða veitingahúsið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert