Gestir misvelkomnir í brautskráningar

Allir skólarnir eiga það sameiginlegt að skipta athöfnunum niður í …
Allir skólarnir eiga það sameiginlegt að skipta athöfnunum niður í sóttvarnarhólf. Samsett mynd

Næstu tvær helgar munu þúsundir kandídata brautskrást úr hinum ýmsu háskólum víðsvegar um landið. Athafnirnar eru mismunandi eftir skólum og gestir misvelkomnir.

Háskólinn á Akureyri ríður á vaðið næstu helgi. Þar verður stærsti árgangur í sögu skólans brautskráður en gert er ráð fyrir því að rúmlega 500 nemendur útskrifist. Athöfninni verður skipt í þrennt og fer fram í hátíðarsal Háskólans á Akureyri, bæði á föstudeginum og laugardeginum. 

Hátíðlegt og heiðursgestur á Akureyri

Að sögn talsmanna skólans verður athöfnin með hátíðlegum brag og tónlist í hávegum höfð. Heiðursgesturinn í ár er Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. Kolbrún verður eini gesturinn á athöfninni í ár þar sem nemendum verður ekki heimilt að taka aðkomufólk með. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er heiðursgestur á athöfn HA.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er heiðursgestur á athöfn HA. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Flestir kandídatar í HÍ

Háskóli Íslands mun brautskrá flesta kandídata í ár. Athöfnin fer fram laugardaginn 19. júní þegar rúmlega 1.500 nemendur taka við bakkalár- eða mastersgráðum í tvískiptri athöfn í Nýju-Laugardalshöllinni. Fyrri athöfnin hefst kl. 10 en sú seinni klukkan 13:30. Kandídötum er skipt eftir námssviði og verður eins og í HA ekki heimilt að bjóða gestum. 

Háskólinn í Reykjavík heldur athöfnina sama dag í Eldborgarsal Hörpu. Þar verða um 700 kandídatar útskrifaðir í tvískiptri athöfn, annars vegar tæknisvið og hins vegar samfélagssvið. Athafnirnar fara fram fyrir og eftir hádegi á sama hátt og í Háskóla Íslands. Eldborgarsalnum verður skipt í tvennt og þá getur hver nemandi tekið tvo gesti með sér. Í fyrra var brautskráningunni skipt upp í 10 athafnir. 

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR á einni af 10 …
Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR á einni af 10 athöfnum síðasta árs. Nú verða þær aðeins tvær ef allt gengur sem skyldi. Ljósmynd/Aðsend

Tveir gestir velkomnir á Bifröst

Í Háskólanum á Bifröst er gert ráð fyrir því að brautskrá rúmlega 130 nemendur. Athöfnin mun fara fram innan skólans í Hriflu. Þar eru gestir velkomnir eins og í Háskólanum í Reykjavík, tveir að hámarki. Áætlað er að athöfnin muni taka einn og hálfan tíma þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert