Ætlar að skila minnisblaði fyrir helgi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist búast við því að skila minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir helgi. Minnisblaðið snúi hvoru tveggja að takmörkunum innanlands og á landamærum. 

Mögulegt er að tilkynnt verði um fyrirkomulag á landamærunum og takmarkanir innanlands á morgun, en ríkisstjórnin fundar í fyrramálið. Svandís Svavarsdóttir sagði á Alþingi fyrr í mánuðinum að til standi að hætta að skima bólusetta ferðamenn á landamærunum eftir 15. júní.

Þá hefur sú þróun á landamærunum einnig orðið á síðustu vikum að nú er tekið við stafrænu evrópsku Covid-19 vottorði. 

„Við erum byrjuð að fá svona vottorð á landamærunum. Það er ekki alveg komið að því að við séum að gefa þau út hér, en það er stefnt að því að um mánaðarmótin verði allir í Evrópu komnir með svona vottorð,“ segir Þórólfur. Reglugerð um vottorðin, sem samþykkt var af Evrópusambandinu í maí, verður tekin upp í EES-samninginn. 

Tryggja að efnið spillist ekki

Þrír aukaárgangar voru boðaðir í bólusetningu í Laugardalshöll í dag vegna dræmrar mætingar, en aðeins um helmingur af þeim sem hafði verið boðaður í morgun lét sjá sig. Í dag er bólusett með Janssen, efni Johnson & Johnson. 

„Ég hef ekki fengið niðurstöður eða tölur frá heilsugæslunni, það á eftir að skoða það. Það er yfirleitt gert þannig á hverjum degi að það er blandað bóluefni og boðað í þá skammta sem hægt er að bólusetja og þegar sýnt er að menn eru ekki að mæta er bara farið í næsta hóp og fleiri boðaðir til að tryggja að bóluefnið spillist ekki,“ segir Þórólfur um aðsóknina.

Mismunandi umtal um bóluefnin

Spurður hvað útskýri dræma aðsókn segir Þórólfur: 

„Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað það er. Það er mismunandi umtal um bóluefnin, oft er það ekki með réttu. Þau bóluefni sem kannski hafa orðið verst út úr umræðunni eru AstraZeneca og Janssen og maður veit stundum ekki alveg á hvaða forsendum það er,“ segir Þórólfur. 

Hann telur líklegt að bólusetning eftir árgöngum eigi eftir að ganga vel miðað við þessa fyrstu viku með slíku fyrirkomulagi. 

„Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu, ekki nema það komi eitthvað stórt upp á – að fólk mæti ekki eða vilji ekki eitt bóluefnið. Þá getur það valdið truflun. Þeir sem ekki mæta geta þurft að sæta seinkun.“

Enn hefur ekki verið ákveðið að bólusetja þá sem sýkst hafa af Covid-19. Aftur á móti er nú unnið að því að skipuleggja bólusetningar meðal 12 til 15 ára barna með undirliggjandi sjúkdóma.

mbl.is