Bólginn bjór og orsökin óljós

Annasöm vika hjá vörusviði ÁTVR.
Annasöm vika hjá vörusviði ÁTVR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í annað skiptið í þessari viku hefur ÁTVR þurft að innkalla bjór vegna hættu á að umbúðirnar geti bólgnað út og sprungið. Ekki er um að ræða bjór frá sama framleiðanda.

Skúli Þór Magnússon, sérfræðingur á vörusviði stofnunarinnar, segist í samtali við mbl.is ekki viss um ástæðu þess að Citrus Smash-bjórinn bólgnaði út á sama hátt og Sigla Humlafley Session IPA-bjórinn, sem var innkallaður fyrr í vikunni.

Sprakk heima við

Eins og þá kom fram var frávik í framleiðslu og geymsla við of hátt hitastig ástæða þess að Sigla Humlafley Session IPA bólgnaði út og sprakk.

Í gær tilkynnti ÁTVR að innkalla þyrfti Benchwarmers Citra Smash bjórinn. Bjórinn hafði áður verið tekin úr sölu, en fregnir bárust til ÁTVR um að viðskiptavinur hefði keypt bjórinn og hann sprungið heima við.

Benchwarmers Citra Smash.
Benchwarmers Citra Smash.

Fyrr í vikunni var greint frá því að slys hefði orðið í vínbúð ÁTVR og starfsmaður slasast vegna þess að bjórdós sprakk nálægt honum. Slysið á starfsmanninum um daginn ýtti því við ÁTVR og ákveðið var að innkalla það sem þegar hefði selst af Citrus Smash-bjórnum.

mbl.is