Tognaði á fingri þegar dósin sprakk

Minni háttar slys varð á starfsmanni ÁTVR vegna gallaðrar vöru.
Minni háttar slys varð á starfsmanni ÁTVR vegna gallaðrar vöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kom í fréttatilkynningu frá ÁTVR fyrir helgi að innkalla þurfi The Brothers Brewery Sigla Humlafley Session IPA-bjór. Ástæða innköllunar er sú að umbúðirnar geti bólgnað út og sprungið.

„Þetta er svona samspil á fráviki í framleiðslu og svo geymslu í vínbúð við of hátt hitastig,“ segir Skúli Þór Magnússon, sérfræðingur á vörusviði ÁTVR, í samtali við mbl.is.

Ekki liggur fyrir hvert beint fjárhagslegt tjón er. Hvort innköllunin hafi síðan langtímaáhrif á vörumerkið sjálft er erfitt að meta. Skúli segir svo ekki þurfa að vera.

„Mín tilfinning er almennt sú að svona innkallanir hafi ekki langtímaáhrif.“

Allir sem eiga þessa vöru, með fyrrnefndri best fyrir dagsetningu, …
Allir sem eiga þessa vöru, með fyrrnefndri best fyrir dagsetningu, eru beðnir um að farga henni eða skila henni í næstu vínbúð og fá hana þar bætta.

Minni háttar slys í vínbúð 

Ekki hafa borist tilkynningar um að slys hafi orðið á fólki vegna vörunnar, en minni háttar slys varð í vínbúð ÁTVR. Starfsmaður tognaði á fingri þegar bjórdós sprakk nálægt honum.

„Þetta er eitthvað sem er algjört jaðartilvik en getur sem sagt komið fyrir.“

Spurður hver beri ábyrgð verði neytandi fyrir áverkum vegna vörunnar segist Skúli ekki viss.

„Neytandinn getur náttúrulega sótt ábyrgð til okkar, við sem söluaðili berum ábyrgð gagnvart neytanda. Samt þyrfti ég að fá að tala við lögfræðing varðandi þetta.“

Engu hefur verið fargað enn, en birgðir ÁTVR sem hafa verið teknar úr sölu í vínbúðum eru 201 dós. Enn sem komið er hefur ekkert borist til baka frá viðskiptavinum vegna innköllunar.

mbl.is