Hvaða sveppir eru hættulegastir?

Rakaskemmdir og mygla í var aðalfundarefni málþingis sem fór fram …
Rakaskemmdir og mygla í var aðalfundarefni málþingis sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í dag. Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Meðal hættulegustu sveppa landsins eru svartmygla, litafrugga, súlufrugga og kúlustrýnebba. Þetta kom fram í máli dr. Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur, sveppafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um rakaskemmdir og myglu í húsum.

Í máli Guðríðar kom fram að Náttúrufræðistofnun á Akureyri hefur tekið fjöldi sýna úr íslenskum húsum þar sem fundist hafa um 100 sveppategundir, sumar ótilgreindar. Nokkrar eru mjög algengar en margar fátíðar.

Dr. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur.
Dr. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur. Hjálmar S. Brynjólfsson

Það sem geri sveppi sem myndast innanhúss hins vegar hættulega er þegar þeir mynda mikið af sveppaeiturefni sem getur haft mjög alvarleg áhrif bæði á dýr og menn. Efni sem geta í mjög litlu magni valdið eitrunum eða verið krabbameinsvaldandi.

Í því samhengi tók Guðríður saman fjórar sveppategundir sem eru hættulegar.

Getur vaxið í lungum manna

Svartmygla vex á blautum pappa og myndar svört, flúruð gró sem límast saman í kúlu.

Kúlustrýnebba myndar askgró sem límast saman í ströngla og er oftast á spónaplötum.

Almennt séð eru fruggur hættulegar en þær vaxa flestar þar sem er heitt. Litafrugga er afar algeng og vex t.d. á linoleumgólfdúki og blautum gifspappa. Hún getur myndað krabbameinsvaldandi efni.

Súlufrugga er hitaþolin og stórhættuleg heilsu manna. Hún getur vaxið í lungum fólks sem hefur veikt ónæmiskerfi og andar að sér miklu magni af gróum hennar, hún er hins vegar fremur fátíð hérlendis.

48 klukkustundir til að koma í veg fyrir sveppamyndun

Raki er aðalástæða myglu og gefur Guðríður meðal annars þau ráð að þrífa, sótthreinsa og lofta vel út. Þegar byggingar blotna þarf að stöðva lekann og þurrka þær hratt og örugglega innan 48 klukkustunda til þess að koma í veg fyrir sveppamyndun.

Þá þarf að skipta um efni sem hefur skemmst. Ef það er ekki gert þá geta orðið til stórir myglaðir fletir inn í veggjum, undir aðliggjandi gólfefnum eða í þakvirki. Slíkt mengar inniloftið.

Nánar má lesa um myglusveppi og ráð við þeim á vef Náttúrufræðistofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert