„Ríkisstjórnarsamstarfið bara gengið mjög vel“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég myndi segja að í meginatriðum þá hafi ríkisstjórnarsamstarfið bara gengið mjög vel,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

„Það segir náttúrulega sína sögu að við erum að sjá núna þriggja flokka ríkisstjórn ljúka kjörtímabilinu. Það undirstrikar það að okkur hefur lánast að komast í gegnum flókin mál,“ segir Svandís og bætir við að kjörtímabilið hafi ekki verið einfalt.

„Ég held að ekkert okkar hafi órað fyrir að við ættum eftir að glíma við heimsfaraldur á þessu tímabili. Það er auðvitað árangurinn sem segir okkur allt,“ segir Svandís og nefnir í því samhengi árangurinn í bólusetningu, sóttvörnum og efnahagslífinu. „Það hafa verið farsælir verkstjórar sem hafa leitt okkur í gegnum þessa erfiðleika."

Óvenjuleg staða

Ríkisstjórnin hefur lagt fram lista af málum sem þau hyggjast klára fyrir lok þingsins. Samningaviðræður um þinglok standa yfir á milli þingflokksmanna, en staða mála þykir óvenjuleg þar sem ágreiningur um hvaða mál komast á dagskrá hefur að mestur verið á milli stjórnarflokka en ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Því hafa fjölmörg stór pólitísk mál verið lögð til hliðar.

Spurð hvort að umdeild frumvörp hafi stöðvast vegna ágreinings í ríkisstjórninni svarar Svandís neitandi. Blaðamaður nefnir sérstaklega frumvarp sem Svandís lagði fram um afglæpavæðingu neysluskammta. Svandís segir það hafa náð fyrir nefnd. „Það er hins vegar bara eins og gerist og gengur, og þá sérstaklega í lok kjörtímabils, þá eru ekki öll mál sem nást í gegn. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því svo sem ágreiningur á milli stjórnarflokka eða þá að mjög margar eða alvarlegar athugasemdir eru gerðar.“

Þess má geta að þingflokkur Pírata lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta á síðasta þingi en var það fellt á þeim forsendum að heilbrigðisráðherra ætlaði að vinna mál betur og koma með eigið frumvarp sem búið er að svæfa. Píratar sækjast því eftir að fá sitt frumvarp aftur á dagskrá.

„Þegar maður er komin svona nálægt þinglokum þá er yfirleitt meginlínan sú að þau mál sem komast greiðlegast í gegn eru þau sem eru að jafnaði afgreidd í samstöðu,“ segir Svandís.

Hefur samstaða ekki verið næg á þinginu?

 „Þetta er bara alvanalegt og þess vegna erum við með lýðræði og fjölmarga flokkar á þingi.

Ríkisstjórnin samanstendur af þremur flokkum.
Ríkisstjórnin samanstendur af þremur flokkum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is