Langtímaútlit bendi til sumars í kaldara lagi

Fólk nýtur sólarinnar á Austurvelli í maí síðastliðnum.
Fólk nýtur sólarinnar á Austurvelli í maí síðastliðnum. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Ekki er hægt að segja að veður á höfuðborgarsvæðinu hafi verið sumarlegt um helgina. Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir of snemmt að segja til um hvernig sumarið eigi eftir að vera. 

Það sé þó ekki líklegt að veður breytist mikið á suðvesturhorninu á næstu dögum. 

„Það er ekki að sjá í komandi viku, það hlýnar aðeins undir helgi, en þá verður vindáttin suðlæg og þá rignir yfirleitt hér á Suðvesturlandinu,“ segir Óli. Óráðlegt sé að ráða í veðurspár lengra fram í tímann en næstu daga. 

„Eftir næstu helgi eru spárnar bara svo ótryggar, það eru enn að gerast miklar breytingar fyrir næstu helgi svo það hefur ekkert mikið upp á sig að horfa lengra en 17. [júní]. Það á eftir að breytast aftur, það er bara spurning í hvora átt það verður,“ segir Óli en bætir þó við:

„Langtímaútlit undanfarið hefur verið býsna eindregið um að sumarið verði frekar í kaldara lagi. Við liggjum inni í köldum loftmassa og hann er ekkert á leiðinni burt, svo þótt það komi mildari dagar inn á milli þá er heildarpakkinn frekar kaldur,“ segir Óli. 

Frétt af mbl.is

„Það getur svo margt breyst bara á nokkrum vikum, þetta gæti endað sem besta sumar í manna minnum þegar upp er staðið, veðurminni fólks er oft svo stutt,“ segir Óli. 

mbl.is