Fimm ákærð fyrir frelsissviptingu og fleiri brot

Lýsingarnar í ákærunni eru uggvænlegar.
Lýsingarnar í ákærunni eru uggvænlegar. mbl.is/Hjörtur

Héraðssaksóknari hefur ákært fimm einstaklinga fyrir að hafa svipt konu frelsi sínu í Reykjanesbæ fimmtudagskvöldið 27. september árið 2018.  

Tveir þeirra eru ákærðir fyrir tilraun til fjárkúgunar, en þeim er gefið að sök að hafa ógnað konunni með verkfæri, hrækt á hana, hótað því að skera af henni fingur, brjóta í henni bein, stinga hana, drepa hana og fjölskyldu hennar og loks hótað að grafa upp látinn fyrrum unnusta hennar og stinga lík hans.

Þá er einn hinna fimm ákærður fyrir að hafa, auk frelsissviptingar, hótað að láta nauðga konunni og því að hún yrði fyrir barsmíðum.

Þá er kona ein ákærð auk frelsissviptingarinnar fyrir að hafa haft í hótunum við konuna, hótað að láta nauðga henni, berja og láta selja hana í vændi, auk þess að hún skrifaði rotta á enni konunnar. Þá er hún ákærð fyrir að hafa hrint konunni, stolið af henni úlpu og krafið hana um greiðslu að andvirði 70 þúsund krónur.

Þá er einn hinna fimm ákærður til viðbótar við frelsissviptingu, um vörslu smávægilegs magns af kókaíni, um 0,09 gramma. Það fannst við leit lögreglu þegar maðurinn var fluttur til yfirheyrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert