Fjögurþúsundasti nemandinn útskrifaður frá Keili

Ljósmyndir frá útskriftinni.
Ljósmyndir frá útskriftinni.

Keilir  miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 171 nemanda við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 11. júní. Við athöfnina voru útskrifaðir 87 nemendur af Háskólabrú, 26 ÍAK-einkaþjálfarar, 26 ÍAK-styrktarþjálfarar og 32 atvinnuflugmenn. 

Útskriftin markaði þau tímamót að fjögurþúsundasti nemandinn útskrifaðist frá Keili og hafa nú samtals 4.166 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar. Heiðurinn féll Daða Þór Ásgrímssyni, nemanda Háskólabrúar, í skaut og fékk hann blómvönd frá Keili við þetta tækifæri.

Ljósmyndir frá útskriftinni.
Ljósmyndir frá útskriftinni.

Háskólabrú brautskráði samtals 87 nemendur, 64 nemendur af Háskólabrú í fjarnámi, 23 af Háskólabrú með vinnu og 10 af Háskólabrú í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar.

Ljósmyndir frá útskriftinni.
Ljósmyndir frá útskriftinni.

Þá kemur fram í tilkynningu Keilis að dúx Háskólabrúar hafi verið Eyjólfur Örn Auðunsson með 9,68 í meðaleinkunn og fékk hann gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hlaut Hildur María Jónsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú.

Jonas Romby Rernböck hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugnámi með 9,56 í meðaleinkunn. Bryndís Ósk Valdimarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK-einkaþjálfun með meðaleinkunn upp á 9,71 og Hildur Ketilsdóttir hlaut verðlaun fyrir bestan námsárangur í ÍAK-styrktarþjálfun með meðaleinkunnina 9,76.

Ljósmyndir frá útskriftinni.
Ljósmyndir frá útskriftinni.
mbl.is