Kráargestir þurfa enn að skrá sig

Gestir öldurhúsa munu ennþá þurfa að skrá niður upplýsingar þegar …
Gestir öldurhúsa munu ennþá þurfa að skrá niður upplýsingar þegar við komu á skemmtistaði og krár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í reglugerð heilbrigðisráðuneytis sem tók gildi í dag er gengið skemur en sóttvarnarlæknir mældi með í afléttingu takmarkana á skemmtistöðum, spilastöðum og krám. Þar var viðhaldið þeirri reglu að gestir þyrftu að skrá komu sína. Mikil óvissa hefur ríkt í dag um fjöldatakmarkanir inni á þessum stöðum.

Í minnisblaði sóttvarnarlæknis var mælst til þess að 300 mætti hleypa inn í hvert hólf á veitingastöðum, krám, skemmtistöðum og í spilasölum. Það er í samræmi við almennar fjöldatakmarkanir. Í fyrstu reglugerð heilbrigðisráðuneytisins var sú heimild hins vegar takmörkuð verulega og þar einungis heimilað að hleypa 150 í hvert hólf eða helmingi færri en mega koma saman annars staðar.

Þeirri reglugerð var þó breytt með annarri breytingarreglugerð, þá breytingu má einungis finna í Stjórnartíðindum og skýringarmynd almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra gerir enn þá ráð fyrir 150 manna takmarki á veitingastöðum, skemmtistöðum, krám og spilastöðum.

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra var í vandræðum með afléttingarreglugerð heilbrigðisráðuneytisins í dag …
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra var í vandræðum með afléttingarreglugerð heilbrigðisráðuneytisins í dag eins og margir fleiri. Ljósmynd/Almannavarnir

Enn krafist skráningar kráargesta

Samkvæmt minnisblaði sóttvarnarlæknis sem var tengt við afléttingartilkynningu á vef Stjórnarráðsins, var þess heldur ekki krafist að skemmtistaðir, né krár eða spilasalir þyrftu að skrásetja gesti við komu þeirra. Veitingastaðir þyrftu hins vegar að halda því áfram. Í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins er krám og skemmtistöðum hins vegar gert að halda áfram að skrá gesti þvert á tilmæli sóttvarnarlæknis.

Í tilkynningu stjórnarráðsins 11. júní kom fram að „heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þessar breytingar á reglugerð um takmarkanir á samkomum innanlands og eru þær í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.“ Í þeirri tilkynningu var hvergi minnst á þetta frávik fyrir krár, skemmti- og spilastaði.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Eggert Jóhannesson

Fréttin var uppfærð í samræmi við athugasemdir heilbrigðisráðuneytisins.  

mbl.is