Markmið um kolefnishlutleysi lögfest

Landgræðsla og skógrækt eru lykilþættir í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Landgræðsla og skógrækt eru lykilþættir í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Ljósmynd/Aðsend

Meðal frumvarpa sem afgreidd voru fyrir þinglok síðasta þings þessa kjörtímabils var Loftslagsmál – markmið um kolefnishlutleysi. Í því felst markmiðið að Ísland nái kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040, en það hefur nú verið lögfest.

Kolefnishlutleysi telst vera náð þegar losun kolefnis er ekki meiri en sem nemur bindingu þess.

Kveðið var á um stefnu á kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040 í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem og uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í lofslagsmálum. 

Hún hefur að geyma 40 aðgerðir sem ná meðal annars til orkuskipta í samgöngu, aukinni grænmetisrækt og landgræðslu, og föngun koltvíoxíðs úr stóriðju.

Sjá má kynningu stjórnvalda á aðgerðaráætluninni hér: 

„Stefnubreyting varð þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við í lok árs 2017 og Ísland komst í hóp fjölmargra ríkja sem sett hafa fram markmið um kolefnishlutleysi í stefnu sína. Með lögfestingu markmiðsins erum við nú komin í hóp framsæknari ríkja sem sett hafa slíkt markmið í löggjöf sína,“ er haft eftir Guðmundi Inga í tilkynningu frá stjórnarráði Íslands.

„Þetta er afar mikilvægt skref í loftslagsmálum á Íslandi og sýnir að okkur er alvara. Lagasetningin eykur aðhald við stjórnvöld og festir markmiðið í sessi óháð því hver eru við völd.“

mbl.is