Takmarkanir setja svip sinn á 17. júní

Kópavogsbúar skemmta sér á 17. júní.
Kópavogsbúar skemmta sér á 17. júní. Ljósmynd/Kópavogsbær

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur á fimmtudaginn víðsvegar um landið. Í Reykjavík verða hátíðahöld með svipuðu sniði og á síðasta ári vegna samkomutakmarkana.

Er fólk hvatt til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og fánalitum. Það verður þó einhver dagskrá á Klambratúni og í Hljómskálagarði sem og óvæntar uppákomur í miðborginni.

Morgunathöfnin á Austurvelli verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Verður hún að öðru leyti með hefðbundnum hætti og samanstendur af ávarpi forsætisráðherra og frumflutningi fjallkonunnar á sérsömdu ljóði í tilefni dagsins. Að því loknu munu nýstúdentar leggja blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði. Forseti borgarstjórnar, Alexandra Briem, flytur ávarp og skátar munu standa heiðursvakt.

Rýmkanir á samkomutakmörkunum tóku gildi á miðnætti í nótt svo nú mega allt að 300 manns koma saman og fjarlægðartakmörk eru aðeins einn metri. Ef ekki er unnt að uppfylla eins metra regluna gildir grímuskylda.

Mörg fjölmennustu bæjarfélögin hafa þurft að grípa til annarrar útfærslu á þjóðhátíðinni en þau eru vön vegna sóttvarnareglna. Í fyrra voru þó í gildi samkomutakmarkanir á þessum sama tíma svo mörg þeirra styðjast við svipað fyrirkomulag og var þá. Í Kópavogi og á Reykjanesi verða hverfishátíðir, í Hafnafirði verða fjöldatakmörk á viðburði og á Seltjarnarnesi eru íbúar hvattir til að halda daginn hátíðlegan með vinum og fjölskyldu. thorab@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert