Viðhorf mismunandi til Samherja og Sigur Rósar

Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Georg Holm, bassa­leik­ari …
Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Georg Holm, bassa­leik­ari sveit­ar­inn­ar, koma í Héraðsdóm Reykja­vík­ur. Þar voru þeir sýknaðir en málinu verður áfrýjað til Landsréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borið hefur á því að fólk slái skjaldborg utan um hljómsveitina Sigur Rós, nú þegar meint skattalagabrot sveitarinnar komast í hámæli – málinu verður áfrýjað til Landsréttar. Jafnvel hafa þeir sem hæst tala fyrir því að Sigur Rós skuli „látin í friði“ verið mjög áfram um að yfirvöld rannsaki aðra vegna meintra skattalagabrota. 

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, félags- og afbrotafræðingur, mögulega stafa af þeirri tilfinningu fólks að mun meira sé hægt að hafa upp úr því að rannsaka aðra „stærri skattsvikara“ sem jafnvel færri þekkja og eru í minni tengslum við íslenskt samfélag. 

„Fólk hefur jafnvel þá tilfinningu að það sé eitthvað huldufólk, sem enginn þekkir eða fáir þekkja, sem á einhverjar margmilljarða eignir í aflandsfélögum sem ekki hefur náðst að skattleggja. Þá finnst fólki jafnvel eins og frekar ætti að einbeita sé að því en Sigur Rós, sem er þessi alíslenska hljómsveit, sem margir halda upp á og er í raun sprottin meira úr bara íslenskri alþýðu.“

Helgi Gunnlaugsson félags- og afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson félags- og afbrotafræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki sama Jón eða séra Jón

Helgi segist geta tekið undir að hann hafi orðið var við að margir slái eins konar skjaldborg um Sigur Rós. Oft séu það einhverjir sem hefðu allt eins ekki verið líklegir til að slá skjaldborg um nokkurn meintan skattsvikara, hvort sem hann tilheyrir Sigur Rós eða Samherja.

Það segir Helgi að sé merkileg birtingarmynd þeirra tilfinningar fólks sem hann lýsti áður. 

Til dæmis hefur Hallgrímur Helgason rithöfundur tjáð sig um málefni Sigur Rósar og Samherja. Á twittersíðu sinni segir hann að á Íslandi sé kerfi sem fari á eftir Sigur Rós en láti Samherja í friði.

Helgi Gunnlaugsson segir í raun ekkert óeðlilegt við kerfið. Það sé eitthvað sem veki grun yfirvalda á því að á kerfinu sé svindlað og því fari rannsókn af stað. Hann segir að mögulega sé tilfinning fólks ekki bara sú að meiri hagsmunir séu fólgnir í því að ákveðnir aðilar séu rannsakaðir, heldur sé tilfinning fólks einnig sú að kerfið sé nauðbeygt til þess að ákveðnir aðilar séu teknir fyrir en ekki aðrir. Sú óréttlætistilfinning, sem Helgi segir mögulegt að einkenni viðhorf margra, er án ef að merkja í tísti Hallgríms Helgasonar. 

„Kerfið hérna merkir bara að eitthvað sé undarlegt og þá fer bara af stað rannsókn á því máli. Maður hefði haldið að það væri bara af hinu góða að slíkt sé rannsakað, flest viljum við eflaust fá einhvern botn í öll svona mál. Margir halda þó kannski að kerfinu sé beint að einhverjum ákveðnum aðilum á meðan aðrir ganga lausir og það sé ósanngjarnt. Það tengist kannski bara því að fólk heldur að hagsmunum okkar sé betur borgið með því að beina athygli okkar eitthvað annað,“ segir Helgi.

Ekkert heyrst um Alcoa eða Samherja innan dómskerfisins

Í samtali við mbl.is lýsir Hallgrímur Helgason svo þeirri tilfinningu sem hann hafði þegar hann tísti ofangreindu tísti, og rímar sú tilfinning ansi vel við það sem Helgi lýsir. Það er sú tilfinning að yfirvöld beini kastljósi sínu að „röngum aðilum“.

Hallgrímur Helgason rithöfundur.
Hallgrímur Helgason rithöfundur. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það er, að mér skilst, búið að borga sekt fyrir þetta. Svo hefur héraðsdómur dæmt þá saklausa,“ segir Hallgrímur við mbl.is. Hann segir sorglegt að sjá farið á eftir Sigur Rós með jafnharkalegum hætti og raun ber vitni, þegar hægt væri að upplýsa um mun alvarlegri brot. 

„Nú eru bráðum tvö ár liðin frá því að Samherja-málið kom upp og það heyrist ekkert af því máli innan okkar dómskerfis. Þá hef ég heldur ekki heyrt af því að Alcoa Fjarðaál sé rannsakað vegna sinna skattalagabrota. Þeim hefur tekist að koma héðan fé úr landi með því að sýna fram á að álver þeirra sé rekið með tapi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert