Fimmtíu ára stúdínur frá MR í fullu fjöri

Margar kvennanna höfðu ekki sést í fjöldamörg ár.
Margar kvennanna höfðu ekki sést í fjöldamörg ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í hefðbundnu árferði væri á þessum tíma haldið svokallað júbilantaball þar sem allir afmælisárgangar eru boðaðir til veisluhalda ásamt nýstúdentum úr Menntaskólanum í Reykjavík. Vegna samkomutakmarkana varð ekkert af því en bekkur sem útskrifaðist af máladeild MR 1971 ákvað að taka málið í sínar hendur og halda upp á 50 ára stúdentsafmælið sitt með innliti í gamla skólann og svo snæða kvöldverð saman á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur.

Bekkurinn sem hittist var kvennabekkur og mætingin var góð. Þær skipuðu annan tveggja bekkja á nýmálabraut en hinn bekkurinn var einungis skipaður strákum. Hefur þessi aðgreiningarstefna breyst með tímanum og í dag er einmitt leitast við að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í bekkjum ef það er mögulegt.

Guðlaug Jónsdóttir er meðal þeirra sem stóðu að því að skipuleggja endurfundina. Hún segir að hluti hópsins hafi haldið tengslum með reglulegum hittingum í gegnum saumaklúbb en aðrar hafi varla hist frá því að þær útskrifuðust. Því var um nóg að ræða varðandi hvað hafði á daga þeirra drifið síðastliðin 50 ár, eða frá því að þær veifuðu hvítu kollunum á vorkvöldi í miðbænum

Man vel eftir árunum í MR

„Ég man eftir því að þegar við útskrifuðumst þá var júbilantaball og mér fundust 50 ára stúdentarnir vera fólk með annan fótinn í gröfinni, við erum nú sjötugar og allar í fullu fjöri,“ segir Guðlaug en bætir við að eflaust þætti tvítugu fólki í dag þær vera eldgamlar.

Guðlaug segist muna eftir árunum í MR líkt og þau hafi gerst í gær. Góður andi hafi verið í bekknum og skemmtilegar stelpur. Hún minnist þess að bekkurinn þeirra hafi stundum verið uppnefndur flugfreyjubekkurinn. Átti með því að gefa í skyn að stelpur á málabraut hefðu takmarkaðan metnað.

Það var þó aðeins ein úr hópnum sem gerðist flugfreyja. Margar leiddust út í kennslustörf eða leiðsögn. Þá eru einnig í hópnum sjúkraþjálfarar, lífeindafræðingur og læknir.

Konurnar útskrifuðust árið 1971 en það var stuttu eftir stúdentaóeirðirnar sem byrjuðu 1968 og settu svip sinn á tíðarandann og skólalífið. Guðlaug minnist þess þó ekki að í MR hafi borið mikið á þessu, það hafi hins vegar verið meira um „hippa“ í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Í MR var þó talsvert um skáld sem báru þann titil með mismikilli rentu að sögn Guðlaugar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »