Lyktin minnir á þjóðhátíðardaginn

Don Barri í hitanum fyrir framan hraunið.
Don Barri í hitanum fyrir framan hraunið. Ljósmynd/Aðsend

Bandaríski jarðfræðikennarinn Don Barri er tvívegis búinn að sjá eldgosið í Geldingadölum síðan hann kom hingað til lands á dögunum. Hann segist aldrei hafa upplifað annað eins og vonast til að sjá gosið í þriðja sinn þegar hann kemur hingað á næsta ári.

Barri er prófessor í jarðfræði og fékk styrk frá menntaskólanum sínum í Los Angeles til að koma til Íslands í jarðfræðileiðangur. Hann sá eldgosið fyrst á mánudaginn ásamt vini sínum Gísla Reynissyni. Þeir sáu hrauntunguna koma æðandi niður hlíðina og þótti þeim að vonum mikið til þess koma.

Hann hafði aldrei áður séð fljótandi hraun, nema í sjónvarpinu og á YouTube, og segir ekki hægt að líkja þessu saman. Erfitt sé að koma orðum að upplifuninni. Öll skilningarvitin hafi fengið eitthvað fyrir sinn snúð.

„Þegar ég gekk upp að hraunflæðinu tók ég eftir því hvað lyktin var sterk. Hún minnti mig á fjórða júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna. Við skutum alltaf upp flugeldum úti í garði og þá var þessi sama brennisteinslykt,“ segir Barri.

„Það kom mér á óvart að finna þessa sterku lykt og síðan kom þessi ótrúlegi hiti frá hrauninu. Ég komst ekki nær en kannski fjóra metra.“

Hraunið rennur í nokkuð stöðugum straum.
Hraunið rennur í nokkuð stöðugum straum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt annað að vera á staðnum 

Hann segir ferðina að eldgosinu hafa verið umfram væntingar. Áður en hann fór vissi hann vitaskuld mikið um eldgos eftir að hafa lært um þau í kennslubókum en að geta séð eitt slíkt í eigin persónu var magnað.

Þegar Barri sá eldgosið í seinna skiptið segir hann hraunflæðið hafa verið öðruvísi. Á mánudaginn flæddi það niður hlíð og var grófgert en í seinna skiptið virkaði það mýkra. Þá kom hann að því úr annarri átt því hann gekk að enda hraunsins frá veginum, styttri leið en síðast. „Mér fannst mjög áhugavert að sjá hvernig sama hraunflæðið gat litið mismunandi út,“ segir hann.

Barri er sannkallaður Íslandsvinur.
Barri er sannkallaður Íslandsvinur. Ljósmynd/Aðsend

Breytti lífi hans 

Aðspurður segist hann vera spenntur að deila reynslu sinni með nemendum sínum og bætir við að þeim finnist fyrirlestrar hans áhugaverðari þegar hann talar af persónulegri reynslu. Hann kveðst sífellt vera að hvetja nemendur sína til að heimsækja Ísland og skoða landslagið en sjálfur er hann staddur hér í fjórða sinn.

Fyrst kom hann hingað með konunni sinni árið 2015 og síðan þá hefur hann reynt að koma hingað á hverju ári. „Fyrir jarðfræðing á borð við mig þá er eitthvað við Ísland sem breytti lífi mínu. Þetta er svo fallegur staður og ég get kennt nemendum mínum svo margt sem tengist Íslandi og jarðfræði og þess vegna langar mig alltaf að koma aftur,“ segir hann.

Hraunelfur í Geldingadölum í apríl.
Hraunelfur í Geldingadölum í apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vonandi aftur á næsta ári

Barri var á Laugarvatni í dag og á morgun ætlar hann fara gullna hringinn. Hann heldur svo áfram og fer hringinn í kringum landið rangsælis, með stoppi í Jökulsárlóni, Reynisfjöru, á Húsavík, Mývatni og Akureyri áður en hann flýgur heim á leið frá Keflavík 25. júní.

Sumir hafa margoft farið og séð eldgosið í Geldingadölum, jafnvel 20 sinnum. Spurður hvort hann ætli að láta freistast og kíkja í þriðja sinn áður en hann heldur heim á leið efast hann um það, enda tíminn knappur. Ef gosið verður enn á fullu á næsta ári, sem hann vonar, mun hann þó pottþétt fara og sjá það. Má þá búast við heilmiklum breytingum frá öðru skiptinu. 

mbl.is